Handbolti

Björg­vin Páll: „Léttir í bland við geðs­hræringu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var maður leiksins í kvöld gegn Króatíu enda stórkostlegur.
Björgvin Páll Gústavsson var maður leiksins í kvöld gegn Króatíu enda stórkostlegur. VÍSIR/VILHELM

Björgvin Páll Gústavsson átti frábæran leik og var valinn besti maður vallarins í 35-30 sigri Íslands gegn Króatíu. Viktor Gísli Hallgrímsson byrjaði leikinn en fór útaf eftir um tíu mínútur eftir að hafa ekki varið fyrstu átta skot Króata.

„Mér líður bara rosa vel, þetta var rosa fallegur sigur, mikil orka í þessu. Það er ekkert grín að tveir leikmenn liggi veikir upp á herbergi, einn fær rautt og einn meiðist. Að skila sigri í hús þrátt fyrir það er bara frábært“ sagði Björgvin strax að leik loknum.

Ísland byrjaði leikinn ekki vel og lenti fljótt fjórum mörkum undir, 8-4, þá hafði Viktor Gísli ekki varið eitt skot og Björgvin kom inn í hans stað. 

„Það sýnir bara styrk, lendum fjórum mörkum undir, komum til baka. Hornamennirnir okkar ekkert eðlilega miklir töffarar þó þeir klúðri einhverjum skotum, Bjarki klikkar á þremur röð, skiptir engu máli. Kemur bara aftur inn og skoraði. Óðinn kemur inn eftir brösulega byrjun á mótinu, hendir bara tveimur aftur fyrir sig, það sýnir hvað þessir gæjar eru miklir töffarar. Geggjað að vera hluti af þessu liði.“

Björgvin endaði með 12 varin skot í leiknum og var verðskuldað valinn besti maður leiksins.

Hann sagðist gleðjast yfir eigin frammistöðu en gaf Viktori Gísla mikið hrós fyrir sína frammistöðu hingað til. 

„Ég er hérna til að spila, auðvitað er ég tilbúinn að bakka Viktor upp af bekknum. Hann er búinn að vera frábær og okkar besti markmaður. “

Björgvin átti frábæran kafla undir lok leiks á sama tíma og sóknarleikur Íslands small saman og liðið skoraði sex mörk í röð. 

„[Mér leið] bara ógeðslega vel, þetta var léttir í bland við geðshræringu. Það opnaðist eldjfall hjá okkur, þetta var eldfjall sem við vildum sjá opnast. Ég var bara í spennufalli með nokkrar mínútur eftir, búinn að eyða rosa orku í þetta. Það er svo mikill vilji, mikið hjarta í þessu hóp.“

Þetta var tólfti leikur þjóðanna og í fyrsta skipti sem Ísland vinnur. Ísland hafði áður tapað 10 leikjum og einu sinni náð jafntefli.

„Ég frétti það einmitt að það hefði gengið illa [að vinna Króata]. Þetta er rosaleg handboltaþjóð og það erfitt að kæfa þá, þeir koma alltaf aftur en við náðum því. Það sýnir ansi mikinn styrk“ sagði Björgvin að lokum.

Klippa: Viðtal við Björgvin Pál

Viðtalið allt við Björgvin Pál má sjá í spilaranum hér að ofan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×