Handbolti

Sagosen hreinskilinn: „Eigum ekkert erindi í undan­úr­slit“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sander Sagosen og félagar hans í norska landsliðinu komust lítt áleiðis gegn heimsmeisturum Danmerkur í gær.
Sander Sagosen og félagar hans í norska landsliðinu komust lítt áleiðis gegn heimsmeisturum Danmerkur í gær. getty/Stuart Franklin

Risið var ekki hátt á Norðmönnum eftir tapið fyrir Dönum í milliriðli 2 á EM í handbolta í gær. Eftir tapið á Noregur ekki lengur möguleika á að komast í undanúrslit mótsins.

Heimsmeistarar Dana voru allan tímann með undirtökin í leiknum gegn Norðmönnum. Þeir leiddu með sjö mörkum í hálfleik, 11-18, og unnu leikinn með sex marka mun, 23-29.

Með sigrinum tryggði Danmörk sér ekki bara sæti í undanúrslitum EM heldur er Svíþjóð einnig komin þangað. Möguleikar Noregs eru hins vegar úr sögunni.

„Þetta er leitt. Við vissum að þetta yrði erfitt. Í dag mættum við betra handboltaliði,“ sagði Sagosen eftir leikinn.

„Við eigum ekkert erindi í undanúrslitin,“ bætti þessi skærasta stjarna Noregs við.

Sagosen skoraði fjögur mörk fyrir norska liðið gegn því danska en átti eins og aðrir samherjar hans í vandræðum með að koma boltanum framhjá Emil Nielsen, markverði Dana. Hann varði fimmtán skot (39,5 prósent) og var valinn maður leiksins.

Noregur mætir Svíþjóð í síðasta leik sínum í milliriðli 2 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×