Menning

Fal­legustu bækur í heimi til sýnis í Garða­bæ

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Anton Jónas Illugason, grafískur hönnuður og stjórnarmaður hjá FÍT.
Anton Jónas Illugason, grafískur hönnuður og stjórnarmaður hjá FÍT. Vísir/Einar

Fallegustu bækur í heimi eru nú til sýnis á Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Grafískur hönnuður segir að í bókverkunum sé hugsað út í minnstu smáatriði, allt frá staðsetningu blaðsíðutalsins og því hvernig titlar séu settir upp. 

FÍT, Félag íslenskra teiknara, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Stiftung Buchkunst standa fyrir sýningunni Best Book Design from all over the World 2023. Sýningin var opnuð á föstudag og stendur yfir næsta mánuðinn. Sýnt var frá opnuninni í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudag. 

Í ár bárust 600 bækur í keppnina frá 30 löndum. Fjórtán þeirra voru verðlaunaðar, bækur frá Danmörku, Þýskalandi, Finnlandi, Grikklandi, Hollandi, Austurríki, Póllandi, Sviss og Suður Kóreu.

Fallegasta bókin kemur frá Sviss

Aðalverðlaunin í ár hlaut bókin Susi + Ueli Berger. Kunst am Bau und im öffentlichen Raum 1968-2008. 

„Bókin er stuðningsrit við sýningu sem var sett upp með verkum Susi og Ueli en það ætti frekar horfa á hana sem sjálfstæða upplifun af verkum þeirra“ segir í umfjöllum dómnefndarinnar.

Anton Jónas Illugason, grafískur hönnuður og stjórnarmaður hjá FÍT,  útskýrir að vinningsbókin fjalli um sýningu sem gerð var um ævistarf höfundanna í Sviss. 

„Í umsögn dómnefndar er talað um að henni séu gerð önnur skil heldur en sýningin, bókverkið stendur eitt og sér. Hún gerir efninu mjög góð skil,“ segir Anton.

Verðlaunabækurnar eru mjög fjölbreyttar en að sögn Arnars er ekki eitthvað eitt skilyrði sem þarf að uppfylla til að teljast sem „falleg bók.“

Það er svolítið einmitt að virða viðfangsefnið og bókin ætti algjörlega að endurspegla viðfangsefnið sjálft.

Hann nefnir dæmi um aðra bók eftir danskan listamann þar sem prentað er báðum megin og virðist sem túss komi í gegnum blaðsíðurnar.

Ein af verðlaunabókunum sem eru til sýnis á sýningunni. Vísir/Einar

Átt að fá tilfinningu fyrir viðfangsefninu

Aðspurður um hvað það sé sem einkenni góða bókahönnun segir Anton að ákvarðanir um pappírsval, letur og umbrot verði að taka út frá viðfangsefninu.

„Þegar þú flettir bókinni og bókverkum eins og þessum, þá áttu að fá einhverskonar tilfinningu fyrir viðfangsefninu sem slíku. Svo náttúrulega þessi vandvirkni í öllum atriðum, ef þú skoðar þessar bækur og hvar blaðsíðutalið er, hvernig titlarnir eru settir upp, þetta er allt úthugsað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×