Körfubolti

Skólinn hennar Helenu nær ekki í lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik með TCU háskólanum á sínum tíma.
Helena Sverrisdóttir í leik með TCU háskólanum á sínum tíma. TCU

Aflýsa þurfti tveimur leikjum hjá kvennakörfuboltaliði TCU skólans í Texas í bandaríska háskólakörfuboltanum vegna leikmannaskorts.Helena Sverrisdóttir spilaði á sínum í fjögur ár með skólanum við góðar orðstír. 

Í dag er staðan ekki góð og bandarískir miðlar eins og ESPN slá upp leikmannavandræðum skólans. TCU liðið hefur verið afar óheppið með meiðsli í vetur og nú er svo komið að skólinn nær ekki í lið.

TCU átti að spila við Kansas State í gær og á móti Iowa State á laugardaginn en ekkert verður af þessum leikjum. Leikirnir teljast tapaðir hjá TCU.

Skólinn lét líka vita af því að hann ætlaði að halda opnar æfingar fyrir mögulega leikmenn fyrir framhaldið á tímabilinu.

Leikstjórnandinn Jaden Owens sleit krossband á laugardaginn var og liðið var þá bara með tíu leikmenn. Framherjinn DaiJa Turner reyndi að spila þrátt fyrir ökklameiðsli en hefur tilkynnt að hún þurfi að fara í aðgerð.

Sedona Prince fingurbrotnaði snemma í janúar og er einnig frá keppni. Það er samt ljóst að leikmannahópurinn hjá TCU var þunnur til að byrja með og mátti því ekki við miklu.

Helena Sverrisdóttir spilaði 130 leiki fyrir skólann og var með 13,5 stig að meðaltali í leik. Hún var með 1759 stig, 826 fráköst, 546 stoðsendingar og 227 stolna bolta í þessum leikjum sínum fyrir Texas Christian University.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×