Handbolti

Danir grínast með að Ís­land vilji bara silfur

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason er í stóru hlutverki í auglýsingu TV 2, en textinn passar engan veginn við orð hans.
Ýmir Örn Gíslason er í stóru hlutverki í auglýsingu TV 2, en textinn passar engan veginn við orð hans. Skjáskot/TV 2

Gullverðlaunin eru frátekin á Evrópumóti karla í handbolta í janúar, fyrir Danmörku. Hin liðin vilja þess vegna bara silfur.

Út á þetta gengur bráðskemmtileg auglýsing frá dönsku sjónvarpsstöðinni TV 2 þar sem Ýmir Örn Gíslason er meðal annars í nokkuð stóru hlutverki.

Í auglýsingunni er búið að klippa saman leikhlé hjá öðrum liðum en því danska, og setja danskan texta við það sem sagt er í leikhléunum. Textinn passar þó engan veginn við það sem sagt er, heldur er látið eins og öll hin liðin séu bara að tala um hvað þau langi mikið í silfurverðlaunin. Í lokin kemur svo ástæðan; gullið er frátekið fyrir Dani.

Ef danski textinn við þrumuræðu Ýmis væri réttur, hefði hann til að mynda sagt: „Hey! Ekki standa hérna og hvísla um gullverðlaun! Næst verðið þið reknir út í rútu! Við spilum eingöngu um silfrið, allt í lagi?! Svo gleymum við öllu um gullið.“

Frakkarnir eru látnir sætta sig við að gullið sé ekki möguleiki, enda sé enginn í franska landsliðinu eins og Mathias Gidsel, lykilmaður Dana. Hollendingarnir tala um hve stoltar mæður þeirra yrðu af silfri, og Króatar, Spánverjar og Þjóðverjar vilja ekkert annað en silfur.

Það verður svo að koma í ljós hvort Danir, ríkjandi heimsmeistarar, taki gullið en þeir urðu síðast Evrópumeistarar árið 2012 og hafa ekki spilað úrslitaleikinn á EM í síðustu fjögur skipti.

Veðbankar eru þó sammála um að Danmörk sé langlíklegust til að verða Evrópumeistari. Ríkjandi Evrópumeistarar Svíþjóðar, Frakkland, Spánn, Þýskaland, Ísland og Noregur koma svo næst á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×