Handbolti

Nota gervi­greind til að berjast gegn svindli á EM í hand­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason skilur hér ekkert í dómi. Handboltinn ætlar að gera allt sitt til að koma í veg fyrir svindl í leikjunum á EM í ár.
Ýmir Örn Gíslason skilur hér ekkert í dómi. Handboltinn ætlar að gera allt sitt til að koma í veg fyrir svindl í leikjunum á EM í ár. Getty/Marvin Ibo Guengoer

Það verður enn erfiðara en áður fyrir óprúttna aðila að komast upp með hagræðingu úrslita á Evrópumótinu í handbolta sem hefst í vikunni.

Evrópska handboltasambandið hefur sagt frá því að þeir hafa sótt sér liðsinni frá gervigreind til að vakta mögulegt svindl í leikjum mótsins í Þýskalandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.

Gervigreind mun fylgjast náið með öllum veðmálum tengdum leikjum á Evrópumótinu og láta um leið vita ef eitthvað óeðlilegt sé í gangi.

Markmiðið er að berjast gegn hagræðingu úrslita en stóra markmiðið er að styrkja orðstír handboltans sem hefur beðið mikinn hnekki eftir fréttir af mútumálum dómara.

Fjölmargir leikmenn komu meðal annars fram í norrænni könnun og sögðust gruna dómara um hagræðingu úrslita í leikjum.

„Það er gríðarlega mikilvægt að heilindi okkar stærstu keppni sé ekki dregin í efa,“ sagði Martin Hausleitner, framkvæmdastjóri evrópska sambandsins.

Allir dómarar leikjanna á EM hafa einnig fengið þjálfun í því að taka eftir merkjum um óeðlilega framgöngu leikmanna í leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×