Um­fjöllun og við­töl: Haukar - Breiða­blik 86-95 | Mikil­vægur sigur gestanna

Dagur Lárusson skrifar
Everage Lee var með 25 stig í leiknum.
Everage Lee var með 25 stig í leiknum. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik vann afar mikilvægan níu stiga sigur er liðið heimsótti Hauka í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, 86-95.

Fyrir leik var Breiðablik á botni deildarinnar með tvö stig en eini sigur liðsins kom gegn Hamar fyrir jól. Haukar voru í tíunda sætinu með sex stig.

Það voru Haukar sem byrjuðu leikinn betur og voru með forystuna megnið af fyrsta leikhluta en Blikar voru alltaf skammt undan. Það var síðan um miðbik leikhlutans þar sem gestirnir náðu forystunni og héldu þeir í hana út leikhlutann. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 23-24.

Í öðrum leikhluta náðu Blikar að auka forskot sitt jafnt og þétt og þegar komið var að hálfleiknum var staðan orðin 46-53. Í þriðja leikhluta héldu Blikar áfram og náðu mest fjórtán stiga forystu. Í fjórða leikhlutanum virtust leikmenn Hauka vakna örlítið og náðu þeir að koma forystu Blika niður í tvö stig, 81-83. Blikar náðu að standa af sér storminn og unnu að lokum sigur 86-95. 

Stigahæstur í leiknum var David Okeke með 26 stig fyrir Hauka en á eftir honum var það Everage Lee með 25 stig fyrir Breiðablik.

Ívar Ásgrímsson: Áttum að vinna þetta stærra

Ívar Ásgrímsson gat loks glaðst í leikslok Vísir/Anton Brink

„Ég er stoltur af liðinu mínu í kvöld,“ byrjaði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, að segja eftir leik.

„Ég vil þó segja að mér fannst við eiga að vinna þetta stærra. Mér fannst við vera svolítið hlédrægir þegar við vorum komnir í villuvandræði hérna undir lokin og þá ættum við smá erfitt. En við komumst út úr því og sýndum gríðarlegan karakter,“ hélt Ívar áfram að segja.

Ívar var síðan spurður út í það hvort að þetta hafi verið besti leikur liðsins á tímabilinu.

„Þetta var kannski ekki besti leikurinn hjá okkur á tímabilinu en ég myndi segja að þetta sé skynsamasti leikurinn okkar hingað til. Þetta var leikur sem við gerðum nákvæmlega það sem við ætluðum okkur að gera.“

Stemningin hjá liðinu var mikil í leiknum en Ívar vildi þó meina að sú stemning sé búina að vera í allan vetur.

„Já það var mikil stemning í liðinu en mér finnst hún búin að vera í allan vetur. Ég er með gott lið og með góða leikmenn sem eru ekkert að gefast upp. Núna vorum við að vinnan mjög mikivægan sigur en það er annar mjög mikilvægur leikur í næstu viku fyrir okkur. Ég skora á Blika að mæta, bæði stuðningsmenn en einnig forráðamenn liðsins,“ endaði Ívar Ásgrímsson að segja.

Maté Dalmay: Við erum í botnbaráttu

Maté Dalmay var heldur vonlaus í leikslok.Vísir/Hulda Margrét

„Ég verð að sætta mig við það að við erum að fara að vera í botnbaráttu,“ byrjaði Maté Dalmay, þjálfari Hauka, að segja eftir leik.

„Það er eitthvað sem ég þekki ekki persónulega. Ég hef alltaf verið í toppbaráttu, hvort sem það var í 1. deildinni eða í fyrra í efstu deildinni. Ég verð að setja mig í stellingar fyrir það að við erum í botnbaráttu og reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga,“ hélt Maté áfram að segja.

Maté hljómaði heldur vonlaus varðandi stöðuna en hann var spurður út í það.

„Það er auðvitað vonleysi yfir stöðunni. Við erum með leikmann sem yfirgaf okkur daginn eftir Grindavíkur leikinn og við þurftum að taka inn nýjan mann og því þurftum við að fara aftur á ákveðinn byrjunarreit. Við þurftum að breyta sóknarleiknum algjörlega og hann var ekki smurður í dag.“

„En vonleysið mitt kannski felst í því að við vissum hversu mikilvægur leikur þetta var en mér fannst við ekki sýna baráttu fyrr en undir blálokin í fjórða leikhluta þegar við byrjuðum að láta aðeins finna fyrir okkur, en síðan fjaraði undan því,“ endaði Maté Dalmay að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira