Handbolti

„Lík­lega mitt síðasta Evrópu­mót“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mikkel Hansen með Dönum á heimsmeistaramótinu í janúar á síðasta ári.
Mikkel Hansen með Dönum á heimsmeistaramótinu í janúar á síðasta ári. Vísir/Getty

Mikkel Hansen segir að Evrópumótið í handbolta sem hefst í Þýskalandi í næstu viku verði hans síðasta. 

Handknattleiksmaðurinn Mikkel Hansen verður að sjálfsögðu með Dönum á Evrópumótinu sem hefst í Þýskalandi í næstu viku. Hansen hefur leikið 255 landsleiki fyrir Dani og unnið gull á Evrópu- og Heimsmeistaramótum sem og Ólympíuleikum.

Þó hann sé ekki kominn með á hreint hvenær landsliðsferillinn mun taka enda er hann farinn að leggja drög að því. Í viðtali við danska ríkissjónvarpið segir hann að þetta verði líklega hans síðasta Evrópumót.

„Það er það líklega,“ segir Hansen en næsta Evrópumót fer fram í janúar árið 2026 en þá verður Hansen 38 ára gamall.

„Að sjálfsögðu fer maður að hugsa um hversu lengi maður getur spilað. Getur maður haldið sama dampi? Og getur maður ástríðunni og einbeitingunni sem það krefst?,“ bætir Hansen við.

Framundan hjá danska landsliðinu eru Ólympíuleikarnir í París næsta sumar sem eru mikilvægir í huga Hansen eftir ár hans hjá franska liðinu PSG. Á næsta ári er síðan heimsmeistaramót sem verður að hluta til spilað í Danmörku. Hansen segist ekki vera búinn að ákveða hvort annað þessara móta verði hans lokamót með landsliðinu.

„Ekki enn. Ég kem væntanlega að þeirri ákvörðun á einhverjum tímapunkti. Ef mér finnst ég ekki hafa neitt að leggja í púkkið þá gerist það af sjálfu sér. Ég er ekki kominn það langt að ég sé farinn að hugsa nákvæmlega hvenær hitt eða þetta gerist. Þetta snýst um tilfinningu. Líði mér skyndilega þannig að ég vilji ekki fara með á næsta mót þá er það fínt að stoppa þá.“

Fyrsti leikur Dana á Evrópumótinu er gegn Tékkum þann 11. janúar en daginn eftir mætast Ísland og Serbía í fyrsta leik Íslands á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×