Skoðun

Hvert er hlut­verk Sam­einuðu þjóðanna?

Birna Þórarinsdóttir, Stella Samúelsdóttir og Vala Karen Viðarsdóttir skrifa

Það hefur reynst flestum erfitt að horfa upp á hörmungarnar sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Mörg hafa upplifað réttmætt vonleysi, sorg og reiði - og stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa setið undir ámæli fyrir hægagang og valdleysi. Fólk hefur velt því upp hvort Sameinuðu þjóðirnar eigi yfir höfuð erindi við heiminn eins og hann er í dag.

Það er því ekki úr vegi að spyrja hvert sé hið eiginlega hlutverk Sameinuðu þjóðanna?

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945, skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, í þeim tilgangi að stuðla að heimsfriði sem vettvangur samtals og samstarfs aðildarríkjanna. Fimmtíu ríki tóku þátt í að semja stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem átti að tryggja að sambærilegar hörmungar myndu aldrei aftur eiga sér stað.

Að einhverju leyti mætti líkja Sameinuðu þjóðunum við Alþingi okkar Íslendinga. Þarna koma saman 193 ríki með ólíka heimssýn og ólíkar áherslur, m.a. þegar kemur að loftslagsmálum og réttindum kvenna, barna og hinsegin fólks. Líkt og á Alþingi, er tekist á um ýmis mál, þau rædd og ólík sjónarmið fá að heyrast. Niðurstaða umræðunnar er yfirleitt einhvers konar millivegur. Þetta sáum við til dæmis á nýafstaðinni loftslagsráðstefnu COP28 þar sem mörg ríki hefðu viljað ganga lengra í loftslagsmálum og önnur mun skemur. Það er þetta jafnræði sem gerir Sameinuðu þjóðirnar að svo mikilvægum vettvangi í alþjóðamálum, á sama tíma og það getur torveldað allt starf þeirra.

Aðalstofnanir Sþ eru fimm talsins: allsherjarþingið, öryggisráðið, efnahags- og félagsráðið, gæsluverndarráðið og alþjóðadómstóllinn í Haag. Aðeins ein þessara stofnana hefur ákvörðunarvald og það er öryggisráðið. Í öryggisráðinu hafa fimm aðildarríki neitunarvald og geta því stöðvað samstöðu meirihlutans.

Undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru nokkrar og sinna ólíkum málaflokkum. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er ein slík stofnun og er leiðandi stofnun í réttinda- og mannúðarstarfi fyrir börn í heiminum. Önnur undirstofnun er UN Women, sem er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur alfarið í þágu jafnréttis og að valdeflingu kvenna, stúlkna og hinsegin fólks.

Hvar sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna starfa, eru þær ávallt í umboði stjórnvalda þess ríkis. Flest verkefnanna eru rekin í efnaminni ríkjum heims. Í efnameiri ríkjum heims er ekki talin þörf á þróunar- og mannúðarverkefnum Sameinuðu þjóðanna, en þar eru oft reknar landsnefndir (líkt og landsnefndir UN Women á Íslandi og UNICEF á Íslandi) sem safna fjármagni fyrir starf stofnanna og veita fræðslu um mannréttindi, heimsmarkmiðin og starfsemi Sþ.

Hvað gera Sameinuðu þjóðirnar þegar neyð skellur á?

Þegar neyð skellur á bregðast ákveðnar stofnanir Sameinuðu þjóðanna við – líkt og Almannavarnir Íslands gera hér á landi. Þær veita skjól, mat, vatn og lyf. Viðbragðsstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru nokkrar, UNICEF sér til að mynda um að tryggja neysluvatn og hreinlæti en UN Women, sem er ný stofnun í viðbragðsteymi Sþ, tryggir að allar aðrar stofnanir taki tillit til sértækra þarfa kvenna og stúlkna á tímum neyðar og hamfara og tryggi öryggi þeirra.

En líkt og áður segir, starfa þær ávallt í umboði stjórnvalda þess ríkis sem óskar eftir og þiggur aðstoðina. Þetta á einnig við um aðrar alþjóðlegar hjálparstofnanir. Ekki er unnt að fara inn í ríki með verkefni eða neyðaraðstoð í óþökk stjórnvalda. Þá geta utanaðkomandi aðstæður hamlað starfi alþjóðlegra hjálparstofnana, t.d. ef deilur standa á milli ríkja og ekki reynist unnt að opna landamæri til að koma vistum til þurfandi einstaklinga.

Undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna geta ekki hlutast til um pólitísk deilumál aðildarríkja. Þær eru mannréttinda- og mannúðarstofnanir í þjónustuhlutverki við aðildarríkin og starfa í umboði þeirra í gegnum stjórnskipan Sþ. Völdin eru og hafa ávallt hvílt í höndum aðildarríkjanna og í núverandi fyrirkomulagi eru fimm aðildarríki valdameiri en öll hin. Það kann að vera auðvelt að beina reiði og vanmætti vegna alþjóðastjórnmála að stofnunum sem eru á vettvangi en þær geta einungis starfað og hjálpað upp að því marki sem aðildarríkin leyfa – og með því fjármagni sem berst.

Þar getum við verið stolt því almenningur á Íslandi, þrátt fyrir að vera fámenn þjóð, er á heimsmælikvarða þegar kemur að stuðningi við verkefni UNICEF og UN Women, bæði í mannúðarverkefnum og langtíma þróunarverkefnum. Þannig leggjum við dýrmæt lóð á vogarskálar vonar og friðar.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Unicef á Íslandi

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi

Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastýra Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×