Skoðun

Hann hlýtur að vera á út­leið

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Nú í vikunni skipaði utanríkisráðherra tvo gamla vini og samstarfsfélaga sendiherra. Annan í Róm og hinn í eitt mikilvægasta embætti utanríkisþjónustunnar, sendiherra í Bandaríkjunum. Bæði tvö ágætisfólk og hef ekkert út á þau að setja. Hafa bæði mikla mannskosti en enga reynslu af utanríkisþjónustu.

En það er grímulaus vinavæðing og firring þegar ráðherra hagar sér með þessum hætti þó svo að þetta hafi verið nokkuð algengt í gegnum tíðina. Það er firring þegar ríkissjóður er rekinn með tugmilljarða halla ár eftir ár að stjórnviskan sé ekki meiri en sú að bæta í sendiherraflota landsins, floti sem telur töluvert fleiri en sendiráðin sem við starfrækjum. Ef það er einhvers staðar fita í stjórnkerfinu sem skera má burt, þá er það þarna. Fyrrum fjármálaráðherra ætti að hafa ágætan skilning á slíkum aðhaldsaðgerðum. Enda hefur sá hinn sami bæði beðið og krafist þess af landsmönnum að taka á sig afleiðingar máttlausra aðhaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar.

Þann 2 mars 2020 skrifaði þáverandi utanríkisráherra góða grein í Morgunblaðið þar sem hann tíundaði ansi góðar breytingar á lögum um utanríkisþjónustuna. Þar nefnir hann m.a.

  • Að sett verði þak á fjölda sendiherra
  • Að komið verði á auglýsingaskyldu og sérstakar hæfniskröfur lögfestar
  • Að takmörk verð sett á sérstakar sendiherraskipanir
  • Að sveigjanleiki utanríkisþjónustunnar verði aukinn og tækifærum fyrir yngra fólk yrði fjölgað

Það er ljóst að þessar mjög svo góðu breytingar voru bara orðin tóm, sem er svo sem engin nýlunda þegar kemur að þessari ríkisstjórn.

Eitt af höfuðmarkmiðum þessarar ríkisstjórnar var og er að efla og auka traust almennings á stjórnmálum. Það gerist ekki með innihaldslausum frösum. Það gerist með breyttu og bættu vinnulagi.

Gamla frændhyglin er enn alsráðandi og er ekki á útleið. En kannski er utanríkisráðherra á útleið og heldur í þá gömlu hefð að skipa vini sína sendiherra korteri fyrir afsögn.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×