Körfubolti

Jón Axel skoraði 16 í sterkum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson var öflugur í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson var öflugur í kvöld. Vísir/Vilhelm

Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson skoraði 16 stig fyrir Alicante er liðið vann tíu stiga sigur gegn Oviedo í spænsku B-deildinni í körfubolta í kvöld.

Jón Axel og félagar höfðu góð tök á leiknum frá fyrstu mínútu og leiddu með sjö stigum að loknum fyrsta leikhluta. Munurinn var svo kominn upp í 15 stig þegar flautað var til hálfleiks, staðan 42-27, Alicante í vil.

Heimamenn í Alicante gáfu þó lítillega eftir í síðari hálfleik og gestirnir í Oviedo minnkuðu muninn niður í níu stig fyrir lokaleikhlutann. Nær komust þeir þó ekki og niðurstaðan varð tíu stiga sigur Alicante, 83-73.

Jón Axel var næst stigahæstur í liði Alicante með 16 stig, en hann tók einnig þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu. Senegalinn Serigne Barro var stigahæstur í liði heimamanna með 17 stig, en Demetric Horton var atkvæðamestur á vellinum með 24 stig fyrir Oviedo.

Alicante situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 13 leiki, þremur stigum á eftir toppliði Estudiantes. Oviedo situr hins vegar í áttunda sæti með 19 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×