Handbolti

Einar Þor­steinn samdi um að spila á­fram undir stjórn Guð­mundar á Jót­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Þorsteinn lék með Val áður en hann hélt í atvinnumennsku.
Einar Þorsteinn lék með Val áður en hann hélt í atvinnumennsku. Vísir/Hulda Margrét

Íslenski landsliðsmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarfélagið Fredericia HK.

Einar Þorsteinn hefur verið hjá Fredericia frá því sumarið 2022 og fyrri samningur hans átti að renna út næsta sumar.

Nú hefur Einar framlengt samning sinn við danska félagið sem gildir nú til ársins 2025. Félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni.

Guðmundur Guðmundsson þjálfar lið Fredericia og fékk þennan efnilega leikmann til liðsins á sínum tíma.

Einar hefur síðan unnið sér sæti i landliðshópi Snorra Steins Guðjónssonar en hann lék sinn fyrsta landsleik á móti Færeyjum í Laugardalshöllinni í nóvember.

Einar er 22 ára gamall og hefur spilað mikilvægt hlutverk í varnarleik danska liðsins. Hann fær vonandi fleiri tækifæri í sóknarleik liðsins í framtíðinni.

„Við höfum séð Einar bæta sig hjá okkur og vonumst til að hann verði enn betri. Þess vegna höfum við gert nýjan samning við hann,“ sagði Thomas Renneberg-Larsen, framkvæmdastjóri félagsins.

„Einar fór í aðgerð eftir síðasta tímabil af því að hann var búinn að vera að glíma við axlarmeiðsli í langan tíma. Nú er hann búinn að ná sér af því og öxlin hans er í góðu lagi. Okkar von er að Einar geti bætt sig í sóknarleiknum í viðbót við varnarleikinn þar sem hann hefur þegar náð upp góðri samvinnu við Evgeni Pevnov og Lasse Balstad,“ sagði Larsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×