Handbolti

Dæmdur í þriggja ára bann: Hefur dæmt þrjá leiki Ís­lands á stór­mótum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matija Gubica rekur hér Vignir Svavarsson af velli í tvær mínútur í leik Íslands á HM í Katar 2015.
Matija Gubica rekur hér Vignir Svavarsson af velli í tvær mínútur í leik Íslands á HM í Katar 2015. EPA/Gjorgji Licovski

Króatíski handboltadómarinn Matija Gubica var í gær dæmdur í þriggja ára bann frá dómgæslu af evrópska handboltasambandinu.

Gubica er sekur um að hafi brotið gegn bæði siðareglum evrópska handboltasambandsins (EHF Code of Conduct) sem og gegn siðareglum Alþjóða handboltasambandsins (IHF Ethics Code).

Það var þó tekið fram í frétt um dóminn, á heimasíðu evrópska sambandsins, að brotin hafi ekkert að gera með mögulega hagræðingu úrslita eða að króatíski dómarinn hafi haft önnur áhrif á úrslit leikja.

Matija Gubica dæmdi alltaf með landa sínum Boris Milosevic. Þeir hafa bæði dæmt úrslitaleik á HM og EM á síðustu árum.

Gubica og Milosevic dæmdu úrslitaleik Evrópumótsins 2018 á milli Spánar og Svíþjóðar en einnig úrslitaleik heimsmeistaramótsins 2019 milli Danmerkur og Noregs. Þeir dæmdu líka leikinn um þriðja sætið á HM 2021 en hann var á milli Spánar og Frakklands.

Gubica og Milosevic hafa enn fremur dæmt þrjá leiki íslenska landsliðsins á stórmótum.

Þeir dæmdu fyrst leik Íslands og Noregs á EM 2014 en þann leik vann Ísland 31-26.

Næst dæmdu þeir leik Íslands og Alsír á HM 2015 en þann leik vann Ísland 32-24.

Íslensku strákarnir töpuðu síðan síðasta leiknum sem þeir Gubica og Milosevic dæmdu hjá þeim en það var tapleikur á móti Svíum á EM 2020.

Gubica og Milosevic eru því ekki meðal dómara á EM í Þýskalandi í næsta mánuði en þeir voru búnir að dæma á öllum Evrópumótum frá og með EM 2014 eða fimm mótum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×