Skoðun

Fá­tækt barna­fjöl­skyldna eykst ört á Ís­landi

Stefán Ólafsson skrifar

Ný skýrsla UNICEF um fátækt barnafjölskyldna á tímabilinu 2014 til 2021 sýnir að fátækt jókst næst mest á Íslandi af þeim 40 löndum sem skýrslan nær til. Ég hafði áður bent á að þetta væri að gerast í grein á Vísi (sjá Afkoma launafólks versnar og versnar). 

Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd úr skýrslunni.

Ísland er þó enn í hópi þeirra landa sem búa við litla barnafátækt. Við erum nú í sjötta efsta sæti á þeim lista - en í örri afturför þó.

Ef tölurnar um fátækt barnafjölskyldna hefðu náð til 2022 og 2023 væri útkoma Íslands mun verri en þarna kemur fram því fátæktarbasl hefur aukist verulega á þessum síðustu tveimur árum, eins og kannanir Vörðu rannsóknarstofnunar aðila vinnumarkaðarins sýna (sjá greinina "Leiftursókn gegn lífskjörum lágtekjufólks").

Megin ástæðan fyrir vaxandi fátækt á Íslandi á allra síðustu árum er rýrnun kaupmáttar vegna verðbólgu og aukins húsnæðiskostnaðar. Það sem almennt getur haldið aftur af slíkri óheillaþróun er öflugt tilfærslukerfi heimila, þ.e. barnabætur og húsnæðisstuðningur. Þau kerfi hafa hins vegar verið að rýrna verulega til lengri og skemmri tíma hér á landi (sjá greinina "Afturför íslenska velferðarríkisins").

Verkalýðshreyfingin þarf nú að berjast fyrir endurreisn tilfærslukerfanna ásamt öðrum hagsbótum tekjulægri fjölskyldna í komanbdi kjarasamningum.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×