Skoðun

Hag­fræði, þekking, verð­leikar og vist­kerfi 2

Viðar Hreinsson skrifar

Hagvöxtur eða stærri sýn?

Önnur grein af fimm um hagfræði, jöfnuð, vistkreppu og velsæld. Í fyrri grein var fjallað um hagvöxt og fótfestuleysi frjálshyggjuhagfræði í efnislegum veruleika, fjárnám hugarfars og spillingarsögu hrunsins.

Hvorki hagvöxtur né gegndarlaus uppsöfnun fjármagns og auðæva er neitt náttúrulögmál frekar en að græðgi og yfirgangur séu sérstakt mannlegt eðli eða grunnþættir í mannlegri hegðun. Græðgi og valdafíkn eru að sönnu til en einfaldlega lestir sem flest fólk beitir skynsemi sinni til að halda í skefjum. Öll kerfi eru manngerð og hægt að endurbæta þau eða leggja af en mörg þeirra leggja allt í sölurnar til að viðhalda sér. Meginstraumshagfræðin stangast hins vegar á við hversdagslega mannlega hegðun sem gerir hana að ótraustum vísindum sem hefur lengi verið ljóst. Þegar fyrir hundrað árum síðan benti franski mannfræðingurinn Gabriel Tarde, sem rannsakaði hagfræðina ítarlega, á þennan veikleika, að ástríður fólks og býsna ófyrirsjáanleg hegðun henti ekki endilega hagfræðilegum útreikningum, því enga mannlega eða samfélagslega drætti sé að finna í hagmenninu, homo economicus (Latour & Lépinay: The Science of Passionate Interests: An Introduction to Gabriel Tarde's Economic Anthropology bls. 23–26).

Vaclav Smil er landfræðingur og afburða tölfræðingur, einn af uppáhaldshöfundum Bill Gates og verður seint vændur um róttækt andóf. Í bókinni Growth (2019) lýsir hann svipuðu forsenduleysi hagfræðinnar og Tarde, segir að hún vanræki orkuþáttinn og fjölmarga sögulega og samfélagslega þætti (bls 420). Hann hæðist jafnvel að hagvaxtarhugsuninni, þeirri þrálátu hugmynd að hagvöxtur geti haldið áfram endalaust, hægt sé að kúpla honum frá efnislegum forsendum á borð við hráefni og orku. Þrátt fyrir stöðugar tækniframfarir í framleiðslu tækja og matvæla, tölvuvæðingu, vélmenni og gervigreind sé þessi frákúplun í andstöðu við náttúrulögmál og vanmeti grunnþarfir fyrir fæði, húsaskjól, menntun og atvinnu og ekki megi gleyma því að mannkyni fjölgar.

Þótt hagkerfin teygi sig núorðið inn á óefnisleg svið í þeim tilgangi að mynda hagvöxt verða þau aldrei óháð efnislegum veruleika. Smil segir reyndar að hringrásarhagkerfi innan nútíma hagkerfis sé óhugsandi. Hann vitnar í fræg ummæli hagfræðingsins og heimspekingsins Kenneth Boulding (1910-1993) sem sagði: „Hver sá sem trúir á óendanlegan vöxt einhvers sem er efnislegt, á efnislega endanlegri plánetu, er annað hvort galinn eða hagfræðingur.“ (Growth bls. 492-493). Smil er líka skeptískur á hjöðnun, og enn skeptískari á sjálfbæra þróun (þarfir hverra á að uppfylla spyr hann, Vesturlanda eða Bangladesh?). Ekkert samfélag er komið á veg með að komast handan vaxtar segir Smil. (bls. 490-498) Sjálfbær þróun er vissulega orðin útþynnt klisja í ræðum pólitíkusa og jafnvel farið að nota hugtakið sjálfbærni um rekstur sem ber sig.

Vaclav Smil er fyrst og fremst tölfræðingur og reiknimeistari og skoðar ekki endilega innviði, hreyfiafl, hugarfar og hugsunarhátt í samfélögum í heimspekilegu eða hugmyndasögulegu ljósi. Hann færi létt með að margreikna börn í konur og úr þeim aftur.

Það sem rætt hefur verið hér að framan er fyrst og fremst meginstraumsviðhorf í hagfræði, hvort sem það er kallað nýklassískt eða nýfrjálshyggja. Til eru ýmsir aðrir straumar og hugmyndir í hagfræði, oft í hreinu andófi gegn efnislegu fótfestuleysi meginstraumsins og með meiri samfélagslega eða menningarlega sýn og kjölfestu. Í bókinni The Progress Illusion. Reclaiming our Future from the Fairytale of Economics sem fjallað var um í fyrri grein drepur Jon D. Erickson á ýmsa þeirra, en meginviðfangsefni hans er þó umhverfishagfræði og því er aðaláhersla hans á þeim vettvangi.

Henry George (1839-1897) var sjálfmenntaður en bjó yfir víðtækri lífsreynslu og hafði barist við sára fátækt. Hann var heitur hugsjónamaður og sagði land eiga að vera í samfélagseigu. Mývetnskir bændur kynntu hann fyrir löndum sínum snemma á 20. öld í tímaritinu Rétti. Sigurður Þórólfsson í Baldursheimi lýsti grunnhugmynd hans um land sem almannaeign svo:

„Fyrst er þá jafn réttur allra manna til jarðar og jarðarafnota. Aðalorsök neyðarinnar og auðsmismunar yfirleitt telur hann þá, að fjölda manna er neitað um aðgang og afnot af aðalauðsuppsprettunni — jörðinni; en það fari í sömu átt og að neita þeim um rétt að lifa. Jörðin — afnot hennar sé mönnum jafnnauðsynlegt lífsskilyrði eins og loftið og sólarljósið — þessi þrjú náttúrugæði telur hann frjálsa eign allra manna. Það komi ekki til nokkura mála að svipta nokkra menn, tveimur síðartöldu skilyrðum, og jafn ranglátt sé að svipta þá hinu þriðja lífsskilyrði“ („Auðsjafnaðarkenningar“, Réttur 1. árgangur 1915-1916, bls. 91-92. hér).

Erickson segir nokkuð frá George, ævi hans og hugmyndum. Meginrit hans um framfarir og fátækt, Progress and Poverty varð gríðarlega vinsælt en mætti hatrammri andstöðu hagfræðielítu Bandaríkjanna á þeim tíma sem í hönd fór, gylltu öldinni svokölluðu (The Gilded Age) á síðari hluta nítjándu aldar, með uppgangi nýklassískrar hagfræði og auðhyggju samfara sýnineyslu hinna ríku.

Krafa George er merkileg, í raun sjálfsögð, um almannahlutdeild í náttúrugæðum sem alltaf eru kjölfesta mannlegrar tilveru. Í henni felst önnur krafa, um víðara samhengi þjóðmegunarfræða eins og hagfræðin var oft kölluð. Hagfræðilegir andófsmenn höfðu yfirleitt fjölþættari sýn á viðfangsefnin en hinir nýklassísku sem auk þess voru jafnan nátengdir auðmagninu. Nærri aldamótunum 1900 má nefna Thorstein Veblen (1857-1929), norskættaðan Ameríkana sem gagnrýndi nýklassíska hagfræði, taldi stórfyrirtæki vera skemmdarverkaöfl og afhjúpaði sýndarmennsku hinna makráðu stétta. Hann er einn af feðrum stofnanahagfræði en æviverk hans fólst í að kalla á „þróunarhagfræði sem nyti liðsinnis hinna nýju vísinda mannfræðinnar til að bera fram menningarlegt samhengi hagfræðistofnana“ (Erickson bls. 50). Í þekktasta riti sínu um makindastéttirnar (Theory of the Leisure Class 1899), sem er hrein ögrun við auðsöfnunarhugmyndir, fer hann í inngangi yfir nýjar, mannfræðilegar þróunarkenningar innblásnar af Darwin um upphafinn yfirgang þeirra sem settu sig skör hærra í „barbarískum“ samfélögum og frá þeim sjónarhóli greindi hann sýnineyslu og margvíslega hegðun makindastéttanna. Veblen leit á samfélagið sem þróun og hreyfingu, sem er andstætt jafnvægisleitni hagmennisins sem klassíska hagfræðin hvílir á. Það er hlálegt að ekki hafi verið farið miklu lengra inn á þá fjölfaglegu braut.

Hagsagnfræðingurinn Karl Polany (1886-1964) greindi áhrif markaðshagkerfisins á samfélög og hugarfar fólks, „Þegar þjóðir í iðnvæðingu tóku frjálsum markaði opnum örmum magnaði framgangur nýklassískrar hagfræði á síðari hluta nítjándu aldar upp einstaklingshyggju, fjarlægðist raunverulegt fólk, sem var í raunverulegum aðstæðum með raunverulegar stofnanir. Skipulagning samfélags í kringum markaði kallaði á nafnleysi og aðskilnað milli athafna og ábyrgðar.“ (Erickson bls. 57) Hér liggja rætur hinnar fullkomnu firringar hagfræði og fjármálakerfa frá raunverulegu lífi fólks sem náði traustri fótfestu með fyrrnefndum Bretton Woods fundi 1944 en varð allsráðandi alræði með frjálshyggjunni. Afleiðingar hennar komu komu best í ljós í hruninu 2008, þar sem ofvöxtur fjármálakerfisins rann út í gjörfirrta vafninga og fléttur sem þurfti hámenntaða stærðfræðinga til að vinna með. Aldrei var hins vegar að sjá að stjórnendur fjármálafyrirtækja skildu bofs í samfélagslegu samhengi.

Polany sá þetta nánast fyrir en hann, Henry George og Thorstein Veblen eru til marks um að uppi voru aðrir straumar og hugmyndir sem ekki voru spyrtar við beinharða hagsmuni auðmagns og máttu sín því lítils. Það mátti notast við þá til að bjarga málum eftir kreppuna miklu í Bandaríkjunum 1929, „New Deal“ áætlun Roosevelts forseta sótti töluvert til Georges og Veblens, en Keynes fylgdist vel með henni meðan hann var að móta kenningar sínar (Erickson bls. 66).

Þannig voru uppi ýmsar hugmyndir í hagfræðinni sem höfðu fjölþætta heildarsýn og beindust að almannaheill og lífsgæðum frekar en að vera spyrtar við beinharða hagsmuni auðmagnsins. Þær máttu sín því lítils þegar á leið. Hinni algjöru valdatöku hagvaxtarhugmyndarinnar var komið í kring með æ sterkara, vanheilögu bandalagi viðskipta og stjórnmála. Erickson segir frá því að árið 1953 útnefndi Eisenhower Bandaríkjaforseti Charles Wilson forstjóra General Motors sem varnarmálaráðherraefni. Þá varð mikið hafarí og mótmæli sem urðu til þess að Wilson varð að selja hlutabréf sín í GM svo tilnefningin gæti gengið upp. Erickson segir að þarna hafi línan milli þjónustu við ríkið og þjónustu við atvinnulífið orðið ógreinileg og tilgreinir fræg orð Wilsons: „Árum saman hélt ég að það sem væri gott fyrir land okkar væri líka gott fyrir General Motors, og öfugt“ (Erickson bls. 55). Þarna var farið að þurrka út mörkin milli markaðshagkerfis og lýðræðis og eiginhagsmunagæsla um leið talin í þágu samfélagsins. „Skuldbindingin við sjálfan sig hafði orðið að framúrskarandi þjónustu við samfélagið“ segir Erickson (bls. 56) en þessi greining á rætur hjá Polany. Hið „frjálsa“ markaðshagkerfi lagði þannig í stjórnmálin undir sig og varð ráðandi hugmyndakerfi.

Sú þróun hafði verið í gerjun frá átjándu öld en nú var markaðurinn að taka sér það alræðisvald sem drepið var á hér framar, að vera talinn hið eðlilega ástand og viðmið með öllum sínum uppsveiflum og reglulega niðurgangi, á heimsvísu og innan landa. Þar með varð samfélagið einsleitara. Stofnanabygging samfélagsins fór að snúast um þetta grundvallarviðmið, meðan viðskipti voru áður hluti af stærri og flóknari heild. Hér liggur hið eitraða samband stjórnmála og viðskipta- eða atvinnulífs sem nú er einmitt ítarlega dregið fram í dagsljósið í bók Þorvalds Logasonar um Eimreiðarklíkuna (Eimreiðarelítan – spillingarsaga, sjá fyrri grein) og gengur aftur persónugerð í þeim hrollvekjandi skopleik sem stjórnmálaferill Bjarna Benediktssonar er því hann heldur til streitu þeim aðferðum sem beitt var fyrir hrun.

Til viðbótar við þá hagfræðinga sem Erickson ræðir má frá síðari tímum og hafa víðari sýn en tíðkast í meginstraumnum má nefna voldugt æviverk Indverjans Amartya Sen sem kalla má velferðarhagfræðing með áherslu á færni fólks í samfélagslegu samhengi, Thomas Piketty sem hefur gagnrýnt ójöfnuð heimskapítalismans, og ekki síst þær konur sem fengið hafa Nóbelsverðlaun í hagfræði, Elinor Ostrom sem rannsakaði tengsl mannfólks og vistkerfa (sameiginlegra auðlinda, e. commons), Esther Duflo sem hefur leitað leiða til að draga úr fátækt og nú síðast Claudia Goldin sem hefur rannsakað konur á vinnumarkaði. Kröfur um dýpri jarðtengingar hagfræðinnar verða æ víðtækari og á vefsíðu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vitnar hagfræðingurinn Anthony Annett til að mynda í orð Amartya Sen um að homo economicus sé nánast „félagslegur hálfviti“ (e. social moron) og segir að hagfræðin verði að taka upp siðferðishugsun, enda eigi hún rætur í siðfræði (hér).

Bók Ericksons snýr fyrst og fremst að umhverfishagfræði enda blasa afleiðingar þess kapítalíska hagkerfis sem allsráðandi hefur verið í heiminum hvarvetna við. Hugmyndin um hagvöxt er meginmarkmið hagfræðinnar og er enn víðtækari en svo að hún eigi aðeins heima í frjálshyggjuhagspeki. Eyðingarmáttur hagvaxtarhyggjunnar er hins vegar geigvænlegur. Ekki þarf að fjölyrða um vistkerfisvandann og breytingar valda slíkum jarðsögulegum breytingum að nú er talað um að jarðfræðilegur nútími (e. holocene) sé liðinn undir lok en hann hófst við lok ísaldar, fyrir 10-12.000 árum. Nú sé mannöld hafin (e. anthropocene) þó að fræðimenn greini á umhvenær það hafi gerst, við iðnbyltingu á nítjándu öld, með breytingum um miðja tuttugustu öld eða jafnvel með fyrsta plógfarinu fyrir 10.000 árum. Þess hefur líka verið freistað að smíða önnur heiti, auðmagnsöld (e. capitalocene) og eyðsluöld (e. wasteocene) sem vísar ofureyðslu neysluhyggjunnar. Þá er talað um hagöld (e. econocene), sem umhverfishagfræðingurinn Richard Norgaard sagði að einkenndist af „smættun allra samfélagstengsla niður í rökvísi markaðarins“ (Erickson bls. 86). Þessi hugtök ber öll að sama brunni í leit að hugtaki fyrir vanda sem varla er dreginn í efa lengur.

Í kringum 1970 var þó nokkur áhersla á umhverfismál og hagvöxtur var gagnrýndur, til að mynda í frægri ræðu Roberts Kennedy sem vitnað er til hér í upphafi. Hreyfing komst á í kjölfar bókar Rachel Carson, Silent Spring 1962 og Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) var stofnuð og byggð á lögum sem Richard Nixon undirritaði 2. desember 1970. Rómarklúbburinn, hópur vísindafólks við MIT (Massachussets Institute of Technology) gaf út fræga bók, Endimörk vaxtarins 1972 sem kom út á íslensku í þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar tveim árum síðar. Þar var sýnt fram á auðlindaþurrð jarðar með miklum útreikningum sem hafa staðist í meginatriðum þótt stöku atriðum skeiki, enda voru þá ýmsar aðferðir í frumbernsku. En skammt var í leiftursóknarsigur frjálshyggjunnar enda voru þá svörtustu íhaldsöfl Bandaríkjanna, einkum risar í olíuiðnaði, farin að leggja ókjör af fé í áróðurssjóði og hugveitur til höfuðs öllum félagslegum og umhverfissinnuðum hreyfingum. Frjálshyggjan lagði einnig undir sig fölbleika sósíaldemókratíska flokka sem aðhylltust hagvaxtarsýn Blairismans. Frægustu orð sem tengjast Bill Clinton eru líklega slagorðið af kosningaskrifstofu hans, „Efnahagskerfið fíflið þitt“ (The economy, stupid).

Á síðari áratugum hafa umhverfismál sótt á af vaxandi þunga. Um hríð var haldið á lofti þeirri vafasömu hugmynd að hægt væri að tala um grænan vöxt og græna hagfræði, sem þýddi að ef verðmiða væri skellt á umhverfið kæmi markaðurinn sjálfkrafa með lausnir og hagvöxturinn mallaði áfram. Í þeim anda frjálshyggjuhagfræðinnar 15. maí árið 1997 var jörðin 33 trilljóna dollara virði, sem sagt 33 milljóna milljóna, 33.000.000.000.000 dollara (Erickson bls 96). Upphæðin er óralangt fyrir ofan allt mannlegt skynbragð en hugmyndin ósamboðin mannlegri skynsemi. Græn hagfræði af þessu tagi undirstrikar ekki annað en að það þarf að skipta algjörlega um viðmið. Að einhverju leyti er hún fálmkennd viðleitni til að halda í áhrif og völd hagfræðistrauma sem eru löngu komnir fram yfir síðasta söludag og lífsspursmál að binda endi á.

Um allan heim fer fram gífurleg hugmyndagerjun á flestum sviðum vísinda og fræða vegna vistkreppunnar og þar með endurskoðun á allri sambúð manns og náttúru. Sú gerjun virðist þó hvergi komast nærri umræðu um efnahagsmál og hagfræði á Íslandi, líklega vegna elítuspillingar í bandalagi stjórnmála og viðskipta, öflugs lobbíisma og pólitísks vanmættis. Ráðamenn efnahagslífsins trúa á ætluð „lögmál“ á tímum þegar slík lögmálshyggja með rætur í upplýsingunni er loks undanhaldi. Hagfræðin þarf að laga sig að breyttum veruleika, snúa baki við hagvaxtarhyggjunni og verða að þjónandi afli í stærri samfélagsheild eins og ídeal vísindanna er, í stað þess að vera hugmyndafræðilega skilyrt hækja auðstétta.

Erickson nefnir öfluga umhverfishagfræðinga á borð við Herman Daly (1938-2022), sem var nánast arftaki eða undir áhrifum frá Henry George, Thorstein Veblen og John Maynard Keynes og sótti innblástur til rúmenska hagfræðingsins Nicholas Georgescu-Roegen (1906-1994) sem byggði hagfræðirannsóknir á forsendum varmaaflfræði. Daly komst fyrir þrítugt að þeirri niðurstöðu að „óendanlegur hagvöxtur á endanlegri plánetu væri efnislega óhugsandi og siðferðislega rangur“ (bls. 113). Líkan hans um „stöðugt ástand“ (e. steady state) hafnar „blindum vexti hagkerfisins og stefnir eindregið að því að bæta mannlegar aðstæður“ (bls. 113).

Daly leitaðist við að móta nýja hagfræði því hin hefðbundna dugar ekki og Erickson fetar þá leið. Hann tekur í bók sinni dæmi af leik, þar sem þátttakandi fær hundrað dollara og þarf að bjóða öðrum hluta fjárins. Ekki er um neitt að semja en ef viðtakandinn hafnar boðinu fær hvorugur neitt. Flestir eru nokkuð nærri helmingaskiptum og líkur á höfnun aukast náttúrlega eftir því sem boðið lækkar. Hagmennið homo economicus telur hins vegar „óskynsamlegt“ að bjóða meira en dollar. Að taka hugsun og hegðun náungans með í reikninginn fellur fyrir utan líkan hinnar hreinu hagfræði í ECO 101. Þegar svona leikur er leikinn er aðeins einn hópur sem fer eftir líkaninu, segir Erickson, „heilaþvegnir hagfræðistúdentar“ (bls. 156). Hann segir frá svipuðum leikjum sínum með nemendum sem sýna augljósa tilhneigingu til félagslegrar samkenndar og samstarfs. Einangraðir einstaklingar haga sér eins og hagmennið á nafnlausum markaði og það er einmitt sú hegðun, hegðun hins einangraða einstaklingsvals, sem veldur vanda heimsins eins og harðstjóri en Erickson spyr hvort ný hagfræði geti komið til, sem „rannsókn á mannlegu heimilishaldi sem byggð væri á þróunarsögu okkar sem félagslegri tegund þar sem fólk er háð hvert öðru innbyrðis og býr að ríkulegri og fjölbreyttri reynslu?“ (bls. 169)

Því bendir hann á hugmynd líffræðingsins E. O. Wilson um „consilience“, þörfina á að tengja saman fleiri fræðigreinar til að smíða víðtækar kenningar. Þar er hagfræðin treg í taumi, „sjálfskipuð ákvarðanavísindin falla aumlega á því samtengingarprófi“ (bls. 162). Hann bendir á ýmis svið þekkingar, allt frá taugalíffræði (rannsóknum á sambandi ákvarðana og tilfinninga) til menningarfræða sem gætu lagt af mörkum í samstarfi við nýja hagfræði. Undir það má taka, sú nýja hugmyndagerjun sem drepið er á hér að framan sprettur einmitt úr blómlegu samstarfi hug- og félagsvísinda, lífvísinda og eðlisfræði í víðtæku endurmati á mannlegri tilveru í sambúð við jörð og náttúru. Vera má að„ný hagfræði í þjónustu nýs hagkerfis gæti einmitt bjargað okkur frá sjálfum okkur“ segir Erickson (bls. 172) og í lokakafla bókarinnar viðrar hann hugmyndir um það sem hann kallar róttækt raunsæi í nýrri hagfræði, þar sem leitast væri við að taka mið af lifaðri reynslu fólks sem víðast að og frá öllum tímum, og stefnt væri að meiri sameign og meiri velsæld (bls. 182-183).

Það er ljóst að leiðir eru færar út úr ríkjandi hagöld (econocene). Víða eru áberandi framsæknar hugmyndir um hjöðnun (e. degrowth). Einn sprækasti talsmaður þeirra hugmynda er hagmannfræðingurinn Jason Hickel sem fjallað verður um í fjórðu grein, en fyrst verður vikið að öðrum samfélagsvanda sem steðjar að og er í raun skilgetið afkvæmi sambúðar hagaldarinnar og stjórnmála, harðstjórn verðleikanna, sem nærir ójöfnuð. Það er mikilvægt því jöfnuður er ein skilvirkasta leiðin í átt að umhverfisvænni samfélagsskipan.

Í næstu grein verður fjallað um tengsl frjálshyggjuhagfræði við verðleikahyggju.

Höfundur er bókmenntafræðingur og áhugamaður um jöfnuð og framhald lífs á jörðinni.


Tengdar fréttir

Hag­fræði, þekking, verð­leikar og vist­kreppa 1

Átjánda mars árið 1968 hélt Robert F. Kennedy fræga ræðu í Kansasháskóla. Hann stefndi hraðbyri að útnefningu Demókrata í komandi kosningum. Þetta var á róstutímum stúdentauppreisna, upplausnar gamalla gilda og mótmæla gegn Víetnamstríðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×