Handbolti

Sex marka tap gegn Pól­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Jacobsen hleður í skot.
Andrea Jacobsen hleður í skot. VÍSIR/PAWEL

Íslenska kvennalandsliðið tapaði með sex marka mun gegn Póllandi á æfingamóti fyrir HM í handbolta.

HM í handbolta fer fram dagana 29. nóvember til 17. desember og leikið verður í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Íslenska liðið er á fullu að undirbúa sig fyrir mótið og tekur um þessar mundir þátt á æfingamóti þar sem mótherji dagsins var Pólland.

Ísland skoraði fyrsta mark leiksins og var duglegt að komast yfir á fyrstu mínútum leiksins, Póllandi jafnaði hins vegar alltaf metin jafnharðan. Pólska liðið sneri svo stöðunni úr 3-3 í 6-3 sér í vil og eftir það var ekki aftur snúið.

Þó Ísland hafi minnkað muninn niður í eitt mark þá svaraði Pólland með rosalegu áhlaupi og komst sex mörkum yfir áður en íslensku stelpurnar svöruðu. Munurinn fjögur mörk í hálfleik, staðan 14-10.

Pólland byrjaði síðari hálfleikinn á því að auka forystuna og hélst munurinn í sex til sjö mörkum þangað til flautað var til leiksloka, lokatölur 29-23 Póllandi í vil.

Andra Jacobsen, Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Sandra Erlingsdóttir voru markahæstar í íslenska liðinu með 4 mörk hver. Thea Imani Sturludóttir kom þar á eftir með 3 mörk á meðan Díana Dögg Magnúsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir skoruðu 2 mörk hvor.

Í markinu varði Elín Jóna Þorsteinsdóttir 7 skot og Hafís Renötudóttir 3 skot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×