Viðskipti innlent

„Inn í miðjum storminum sér maður ekki neitt“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Konráð Guðjónsson hagfræðingur fór yfir stöðu mála í Sprengisandi í dag.
Konráð Guðjónsson hagfræðingur fór yfir stöðu mála í Sprengisandi í dag. Vísir/Vilhelm

Konráð Guðjónsson hagfræðingur segir að óvissan í Grindavík muni ekki hafa góð áhrif á verðbólguna. Þó séu þau háð því hvernig mál þróast á Reykjanesi.

Gríðarleg óvissa

Þetta segir hann í Sprengisandi í dag. Hann segist ekki sjá fyrir mikinn samdrátt í hagkerfinu öllu en að það sé engin leið að vita eins og staðan er. Hann segir að krónan sé búin að veikjast og að halli ríkissjóðs sé að aukast.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni ásamt viðtali við Arnar Má Ólafsson um ferðamál í ljósi mögulegs eldgoss í spilaranum hér fyrir neðan.

„Það er náttúrlega gríðarleg óvissa og við vitum ekki hvernig hlutirnir fara. Við gerum ráð fyrir að það svartasta rætist ekki og það verði ekki mjög alvarlegt tjón í Svartsengi. Þá held ég að við séum ekki að horfa á mikinn samdrátt fyrir hagkerfið í heild sinni. Þannig þetta breytir stóru myndinni þar ekkert endilega, en það er algjörlega háð því hvernig þetta þróast náttúrlega,“ segir Konráð.

Vondar fréttir

Hann segir jafnframt að aðstæður á Reykjanesi séu að hafa slæm áhrif á verðbólguna en að ekkert sé hægt að fullyrða eins og er.

„Varðandi verðbólguna, það sem er komið fram núna eru vondar fréttir fyrir hana. Krónan er búin að veikjast við erum að sjá fram á að skortur á húsnæði hefur aukist, mögulega bara tímabundið, það fer eftir því hversu mörg hús eru skemmd í grindavík og hvenær verður hægt að fara þangað aftur. “

Konráð segir að staðan sé ekki góð en að þó sé ekki hægt að sjá fyrir hverjar afleiðingarnar verði. 

„Svo talaði forsætisráðherra um það í gær að þetta myndi vera mjög dýrt fyrir ríkissjóð sem að óbreyttu eykur halla ríkissjóðs. Allt þetta er ekki gott fyrir verðbólguna. Við erum í ekkert sérstakri stöðu en þetta eru smámunir miðað við það sem Grindvíkingar eru að hugsa um núna.“

Hefur fulla trú á því að takist vel

Hann segir óvissuna um þróun mála og hættuna við að eitthvað gerist munu hafa víðtækari efnahagslegar afleiðingar.

„Inn í miðjum storminum sér maður yfirleitt ekki neitt um hver áhrifin eru og hvernig þetta fer allt saman. Hvað verður og hvað þarf að gera er eitthvað sem við verðum einfaldlega bara að læra smátt og smátt. Þannig er einfaldlega staðan, því miður. En ég hef fulla trú á því að það muni takast vel,“ bætir hann við.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.