Handbolti

Besta byrjun lands­liðs­þjálfara í 59 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson byrjar vel með íslenska landsliðið.
Snorri Steinn Guðjónsson byrjar vel með íslenska landsliðið. vísir/hulda margrét

Snorri Steinn Guðjónsson stýrði íslenska karlalandsliðinu í handbolta í fyrsta sinn í tveimur leikjum í Laugardalshöllinni um helgina. Niðurstaðan var betri en við höfum séð í frumraun landsliðsþjálfara í næstum því sex áratugi.

Íslensku strákarnir unnu báða leikina, fimmtán marka sigur í þeim fyrri (39-24) og eins marks sigur í þeim seinni (30-29).

Fyrri leikurinn lagði grunninn að góðri útkomu helgarinnar en Snorri var samt aðeins sjötti fastráðni landsliðsþjálfarinn sem vinnur fyrstu tvo leiki sína með liðinu.

Útkoman voru tvær sigrar og sextán mörk í plús. Það er einu marki betri byrjun en hjá Aroni Kristjánssyni árið 2012. Aron stýrði liðinu þá til sigurs á Hvíta-Rússlandi (36-28) og Rúmeníu (37-30).

Þorbjörn Jensson vann líka tvo fyrstu leiki sína með landsliðinu með samtals fjórtán marka mun en þeir voru á móti Noregi (27-23) og Austurríki (29-19) haustið 1995.

Í raun þarf að fara alla leið aftur til ársins 1964 til að finna betri byrjun hjá landsliðsþjálfara í tveimur fyrstu leikjum sínum.

Karl G. Benediktsson stýrði þá íslenska landsliðinu til sigurs í tveimur leikjum á móti Bandaríkjunum á Keflavíkurflugvelli. Fyrri leikurinn vannst með átján mörkum, 32-14, og sá seinni með sextán mörkum, 32-16.

Karl var þá að undirbúa íslenska landsliðið fyrir HM í Tékkóslóvakíu þar sem liðið vann síðan tvo fyrstu leiki sína þar af 12-10 marka sigur á Svíum sem er einn af stærstu sigrunum í sögu íslenska karlalandsliðsins í handbolta.

  • Besta byrjun landsliðsþjálfara í fyrstu tveimur leikjum sínum:
  • Karl G. Benediktsson 1964
  • 2 sigrar og +34
  • Snorri Steinn Guðjónsson 2023
  • 2 sigrar og +16
  • Aron Kristjánsson 2012
  • 2 sigrar og +15
  • Þorbjörn Jensson 1005
  • 2 sigrar og +14
  • Jóhann Ingi Gunnarsson 1978
  • 2 sigrar og +11
  • Birgir Björnsson 1977
  • 2 sigrar og +8



Fleiri fréttir

Sjá meira


×