Handbolti

Al­sæll eftir fyrsta landsleikinn: „Gæsahúð allan tímann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson á ferðinni í fyrsta landsleiknum.
Einar Þorsteinn Ólafsson á ferðinni í fyrsta landsleiknum. vísir/hulda margrét

Einar Þorsteinn Ólafsson lék sinn fyrsta landsleik í kvöld, ekki bara fyrsta A-landsleikinn heldur fyrsta handboltalandsleikinn. Hann hafði aðeins spilað leik fyrir yngri landslið Íslands í körfubolta.

„Ég fékk gæsahúð, í upphitun, í búningsklefanum og bara allan tímann. Ég naut þess í botn. Þetta var ógeðslega gaman,“ sagði Einar í samtali við Vísi eftir stórsigurinn á Færeyjum, 39-24, í kvöld. Þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar.

Einar segir að Íslendingar gangi sáttir frá leiknum í kvöld.

„Það má ekkert vanmeta Færeyingana. Þeir eru með ógeðslega góða leikmenn. Við gerðum bara ógeðslega vel, sérstaklega að klára þá í seinni hálfleik og héldum hraðanum uppi allan tímann,“ sagði Einar en íslenska liðið sló ekkert af þótt úrslit leiksins væru ráðin snemma í seinni hálfleik.

„Það er það sem toppliðin gera og það viljum við gera líka. Það gekk vel í dag.“

Einar kom inn á þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Skömmu síðar fékk hann brottvísun.

„Þetta voru síðustu átta mínúturnar. Þessar tvær mínútur voru alveg galnar. Þetta var ógeðslega skemmtilegt. Ég vildi bara fá einhverja tölfræði í dag; mark eða stolinn bolta,“ sagði Einar sem náði því ekki en gaf aftur á móti stoðsendingu.

„Ein stoðsending. Ég var óheppinn að skora ekki og stel honum í næsta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×