Skoðun

En þori ég, vil ég, get ég?

Jónína Hauksdóttir skrifar

Á þriðjudaginn verða 48 ár síðan 24. október 1975 rann upp. Sá sögulegi dagur þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og um leið krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar höfðu. Konur komu saman víða um landið og stærsti hópurinn safnaðist saman á Lækjartorgi í Reykjavík þar sem ræður voru haldnar og lagið Áfram stelpur var sungið. Lagið sem margar konur og kvár í dag tengja við kvennafrídaginn.

Þvílíkt hugrekki sem skipuleggjendur og þátttakendur sýndu með þá von í brjósti að útrýma kynjamisrétti. Því miður, nú tæpum fimmtíu árum síðar, er sorglegt að þurfa að hryggja svo hugrakkar konur með því að enn er langt í land með að ná launajafnrétti.

Kennarastéttin er ein af þeim stéttum þar sem konur eru í miklum meirihluta. Félagsfólk Kennarasambandsins fær greidd sömu laun fyrir sömu störf. Því miður er það alls ekki alltaf raunin og breytur á borð við kyn, kynvitund, kynhneigð, stöðu, fötlun, trúarbrögð, aldur og uppruna hafa enn áhrif á launasetningu. Þessi staða á ekki að líðast í dag. Því hvet ég eindregið konur og kvár í Kennarasambandi Íslands að taka þátt í Kvennaverkfallinu 2023.

Sýnum stuðning okkar í verki 24. október. Sýnum sama hugrekki og ömmur okkar, mæður, systur og frænkur gerðu 1975. Tökum þátt. Mætum á samstöðufundi. Sýnum að við erum ómissandi fyrir samfélagið okkar. Sýnum í eitt skipti fyrir öll að við samþykkjum ekki launamisrétti.

Sýnum að enn þorum við, getum og viljum.

Höfundur er varaformaður Kennarasambands Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×