Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld um Law­son: „Eina sem skiptir hann máli er að vinna“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Callum Lawson faðmar þjálfara sinn, Pavel Ermolinskij.
Callum Lawson faðmar þjálfara sinn, Pavel Ermolinskij. Vísir/Hulda Margrét

Callum Reese Lawson er mikils metinn af sérfræðingum Körfuboltakvölds en farið var yfir mikilvægi leikmannsins í síðasta þætti.

Hinn 27 ára gamli Lawson spilar í dag fyrir Tindastól eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Þór Þorlákshöfn og Val ásamt því að verða deildarmeistari með Keflavík árið 2020. Í sumar sótti Tindastóll þennan sigursæla leikmenn og halda sérfræðingar Körfuboltakvölds vart vatni yfir honum.

„Þessi strákur gerir nákvæmlega það sem þarf, ef hann skorar 20 stig þá skorar hann 20 stig. Ef hann þarf að taka 10 fráköst þá tekur hann 10 fráköst ef hann þarf að dekka besta manninn þá gerir hann það,“ sagði Ómar Sævarsson, fyrrverandi leikmaður Grindavíkur, og hélt áfram.

„Honum virðist vera algjörlega sama hvernig tölfræðin hans er, það eina sem skiptir hann máli er að vinna. Það er það sem hann gerir ógeðslega vel.“

Klippa: Körfuboltakvöld um Lawson: Eina sem skiptir hann máli er að vinna

Helgi Már Magnússon lék lengi vel með KR og varð síðan þjálfari liðsins. Hann er í dag sérfræðingur Körfuboltakvölds og er gríðarlega hrifinn af leikmanninum Lawson.

„Mér fannst þetta langbesta pick up-ið í sumar, af öllum leikmönnum. Ég met hann rosalega mikils. Finnst þetta einn mikilvægasti leikmaðurinn í deildinni, kannski ekki sá besti en sá mikilvægasti.“

„Hann spilar góða vörn, getur dekkað alla inn á vellinum, er frábær varnarmaður og frábær liðsmaður. Hann gengur á milli manna, peppar þá og þjappar þeim saman. Hann gerir hrikalega mikið fyrir mig,“ sagði Helgi Már að endingu.

Umræðu Körfuboltakvölds um Callum Lawson má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×