Innlent

Fimmtán þúsund kall fyrir að svindla sér í strætó

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Starfsfólk Strætó má leggja 15.000 króna álag á almenna farþega sem ekki hafa greitt fargjald.
Starfsfólk Strætó má leggja 15.000 króna álag á almenna farþega sem ekki hafa greitt fargjald. Vísir/Vilhelm

Nýjar reglur Strætó bs. um fargjaldaálag tóku gildi í mánuðinum. Í þeim felst fargjaldaálag upp á allt að 15 þúsund krónur, sem leggja má á farþega sem ekki geta sýnt fram á að hafa greitt fyrir strætóferðina.

Reglurnar eru settar af Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra. Lagaheimild til að leggja gjaldið á hefur verið í lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi frá árinu 2021, en lögin veita heimild upp á álagningu allt að 30.000 króna í fargjaldaálag

Samkvæmt reglunum, sem tóku gildi í dag, er starfsmönnum á vegum Strætó bs. heimilt að krefja farþega um umrætt álag, ef farþeginn getur ekki sýnt fram á greiðslu rétts fargjalds þegar eftir því hefur verið leitað.

Fjárhæð álagsins er breytileg eftir því hver á í hlut. Ungmenni á aldrinum 15-17 ára, sem og 67 ára og eldri, verða krafin um 7.500 krónur, geti þau ekki sýnt fram á að hafa greitt rétt fargjald. Þá verða öryrkjar krafðir um 4.500 krónur. Börn yngri en 15 ára verða ekki krafin um álag. Verði farþegi krafinn um álagið getur hann valið að staðgreiða það, en annars fær hann sendan greiðsluseðil til innheimtu þess.

Kæranlegt til Samgöngustofu

Farþegar sem krafðir hafa verið um gjaldið og telja á sér brotið geta leitað réttar síns, en í fimmtu grein reglnanna segir: 

„Telji farþegi ákvörðun um að krefja hann um fargjaldaálag byggða á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik getur hann óskað þess að Strætó bs. taki hana til endurskoðunar. Um endurskoðun fargjaldaálags fer samkvæmt 4. mgr. 30. gr. a. laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.“

Telji farþegar að Strætó hafi komist að rangri niðurstöðu getur hann kært ákvörðun Strætó til Samgöngustofu. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.