Viðskipti innlent

Sakar Kynnis­ferðir um að hafa stolið Icelandia: „Við erum með þrjá hillu­metra í árs­reikningi, þú ert með eina A4 blað­síðu“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jón Ármann segist hafa upplifað sem svo að forsvarsmenn Kynnisferða hafi gert lítið úr starfi sínu. Björn Ragnarsson segir það samtal sem Jón vísi til fjarri sannleikanum.
Jón Ármann segist hafa upplifað sem svo að forsvarsmenn Kynnisferða hafi gert lítið úr starfi sínu. Björn Ragnarsson segir það samtal sem Jón vísi til fjarri sannleikanum. Vísir/Egill/Vilhelm

Jón Ár­mann Steins­son, fram­kvæmda­stjóri Icelandia ehf. sakar for­svars­menn Kynnis­ferða um kennsla­stuld á nafninu Icelandia. Björn Ragnars­son, for­stjóri Kynnis­ferða, segist vísa að­dróttunum og á­sökunum Jóns til föður­húsanna.

Jón Ár­mann lýsir því í að­sendri grein á Vísi að hann hafi fengið sím­tal frá Birni í apríl í fyrra þar sem Björn hafi spurt hvort hann væri til í að selja sér og Kynnis­ferðum firma­nafnið ICELANDIA. Hann segist hafa hafnað því. Jón Ár­mann er með vatns­fram­leiðslu undir nafninu en hefur einnig komið að ferða­þjónustu og fata­iðnaðinum í gegnum nafnið.

Jón lýsir því í greininni að síðan hafi hann lesið um það í fréttum að Kynnis­ferðir hefðu skipt um nafn og héti nú Icelandia auk nokkurra annarra ferða­þjónustu­fyrir­tækja.

„Kynnis­ferða­menn óðu af stað í „rebranding” árið 2022 án þess að eiga firma­heitið en gátu ekki bakkað nema líta út eins og amatörar í fyrir­tækja­rekstri. Hvorki starfs­menn né kúnnar fengu að vita sann­leikann,“ skrifar Jón Ármann.

Hann segist næst hafa rekist á frétta­til­kynningu frá stjórnar­ráðinu um að Arnar Már Ólafs­son hafi verið ráðinn ferða­mála­stjóri og að hann hafi verið leið­togi markaðs­mála hjá Icelandia. Jón segist ekki hafa kannast við það.

Hann segist hafa sent ráðu­neyti við­skipta og ferða­mála erindi vegna málsins og beðið um að frétta­til­kynningin yrði leið­rétt, nafnið Kynnis­ferðir tekið fram en ekki Icelandia. Hann hafi búist við því að ráðu­neytið myndi bregðast snar­lega við.

„En það var öðru nær. Erindi mitt týndist, fékk rangt máls­númer, og var ekki svarað fyrr en um­boðs­maður al­þingis ýtti við því. Þá fann ráðu­neytið upp ó­vænta á­stæðu til að svara engu, og svo aðra á­stæðu þegar þeirri fyrri var hnekkt, og við það situr. Ráðu­neytið er í klípu útaf kennsla­rugli Kynnis­ferða og stjórn­sýslu­við­brögðin eru humm og tja og svo þögnin ein.“

Hafi átt að leggja niður eigið fyrir­tæki

Í sam­tali við Vísi tekur Jón fram að hann sé sann­gjarn maður. Hann hafi verið til­búinn til að hlusta á til­boð for­svars­manna Kynnis­ferða vegna sölu á merkinu.

„En þeir vildu bara fá allt. Ég átti að leggja niður vatns­fyrir­tækið, þar sem ég er með samning við frum­byggja Kanada og vilja­yfir­lýsingu frá Dubai, svo hef ég verið að selja vatn til Belgíu sem fer í lyfja­iðnaðinn, marga gáma á ári, að vísu ekki mikið, en er með tíu milljón króna veltu. Þetta er allt og sumt. Ekki nokkra milljarða eins og þeir. Og það var bara gert lítið úr því og sagt: „Þú getur bara hætt þessu, sleppt þessu bara, seldu okkur nafnið. Við erum með þrjá hillu­metra í árs­reikningi, þú ert með eina A4 blað­síðu. Hann sagði þetta svona í símann.“

Jón viður­kennir að hann upp­lifi miklar til­finningar við að ræða þessi mál, þetta sé ævi­starf sitt. Hann segist hafa upp­lifað sem svo á fundum með for­svars­mönnum Kynnis­ferða að þeir hafi ekki haft raun­veru­legan á­huga á að semja við sig vegna nafnsins. Síðan þá hafi þeir keypt lénið icelandia.is og icelandia.com.

Telur vörumerkið eitt það verðmætasta

„Ég hef þá trú að vöru­merkið Iceland Sea­food, vöru­merkið Icelandic sem Ís­lands­stofa á og þetta vöru­merki sem ég á, séu verð­mætustu vöru­merki Ís­lands fyrir bæði út­flutning og inn­flutning á fólki.“

Jón Ármann segir að þegar Kynnis­ferðir hafi ekki getað fengið firma­nafnið hjá sér hafi þeir reynt að breyta nafni Ferða­skrif­stofu Kynnis­ferða ehf yfir í Ferða­skrif­stofa Icelandia. Kynnis­ferðir hafi hins vegar fengið synjun hjá Firma­skrá.

„Og þeir gerðu það sem ég held að hafi aldrei verið gert á Ís­landi. Þeir kærðu á­kvörðun firma­skrár til ráðu­neytisins, þess hins sama sem réði Arnar Már og heimtuðu að fá að heita þetta. Ég mót­mælti því og engin niður­staða hefur fengist síðan í apríl.“

Segir engum einum aðila heimilt að skrá Icelandia

Björn Ragnars­son, fram­kvæmda­stjóri Kynnis­ferða, segir í skrif­legu svari til Vísis að sam­tal sitt sem Jón Ármann vísi til, sé fjarri sann­leikanum.

„En það væri að æra ó­stöðugan að eltast við þær rang­færslur. Kynnis­ferðir hófu að nota vöru­merkið ICELANDIA í apríl á síðasta ári eftir að hafa skilað inn um­sókn til Hug­verka­stofu um skráningu vöru­merkisins í ferða­þjónustu­flokki. Ein­göngu var til gömul skráning á mynd­merkinu frá árinu 1991 í flokki drykkjar­vara.“

Björn segir þar um að ræða svo­kallað orð-og mynd­merki sem að­eins sé verndað í út­færslunni sem það sé skráð í, en ekki orðið eitt og sér. Hann segir Hug­verka­stofu hafa úr­skurðað að engum einum aðila sé heimilt að skrá Icelandia eitt og sér sem vöru­merki þar sem það væri al­menns eðlis og gæfi til kynna að upp­runi og/eða eigin­leiki þjónustunnar væri tengt Ís­landi.

Björn vísar orðum Jóns Más til föðurhúsanna.Vísir/Vilhelm

„Talið væri and­stætt til­gangi vöru­merkjalaga að á­kveðinn við­skipta­aðili gæti helgað sér orð á borð við þetta. Hins vegar hafa nokkur merki sem inni­halda orðið ICELANDIA fengist sam­þykkt, meðal annars KYNNIS­FERÐIR ICELANDIA sem er í okkar eigu.“

Því megi segja að Hug­verka­stofa hafi úr­skurðað að orðið ICELANDIA eitt og sér upp­fylli ekki skráningar­skil­yrði vöru­merkjalaga til að fást skráð eitt og sér og því sé Kynnis­ferðum full heimild á að nota vöru­merkið fyrir sína starf­semi eins og Jóni Ár­manni sjálfum eða öðrum.

„Kynnis­ferðir hafa aldrei komið fram undir firma­heitinu ICELANDIA hf eða ICELANDIA ehf, heldur að­eins notað það sem vöru­merki til auð­kenningar á starf­semi sinni. Við vísum því öllum að­dróttunum og á­sökunum Jóns Ár­manns til föður­húsanna.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×