Körfubolti

A'ja Wil­­son og Spaðarnir frá Las Vegas til alls lík­legir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
A'ja Wilson ætlar sér að verða meistari annað árið í röð.
A'ja Wilson ætlar sér að verða meistari annað árið í röð. Ethan Miller/Getty Images

Hin 27 ára gamla A'ja Wilson lét til sín taka þegar Las Vegas Aces lagði Chicago Sky og tryggði sér sæti í undanúrslitum WNBA-deildarinnar í körfubolta. Wilson setti félagsmet yfir stig skoruð í leik í úrslitakeppninni en alls skoraði hún 38 stig í leiknum.

A'ja Wilson og Spaðarnir frá Las Vegas eru til alls líklegir en liðið er ríkjandi meistari og hefur spilað frábærlega það sem af er tímabili.

Wilson er skærasta stjarna liðsins, sem og deildarinnar, en hún er að sama skapi með munninn fyrir neðan nefið. Hún lét til að mynda Joe Biden Bandaríkjaforseta heyra það eftir að hann fór með fleipur um meistaralið frá Las Vegas fyrr á árinu.

Kraftframherjinn öflugi stefnir án efa að endurtaka leikinn frá því á síðasta ári en þá varð lið hennar meistari sem og hún var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.

Frammistaða hennar í 22 stiga sigrinum á Chicago Sky tryggði liðinu sæti í undanúrslitum og líkurnar á að Spaðarnir verji titil sinn. Wilson setti félagsmet með því að skora 38 stig en hún tók einnig 16 fráköst og varði fjögur skot.

Þá er hún aðeins þriðji leikmaður í sögu deildarinnar til að skora 35 stig og taka 15 eða fleiri fráköst í einum og sama leiknum í úrslitakeppninni. Wilson er á leið í undanúrslit deildarinnar fimmta árið í röð en aðeins einu sinni hefur henni tekist að vinna titilinn. Hvort hún bæti við öðrum titli við magnaða ferilskrá sína kemur í ljós á næstu vikum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.