Golf

Bale í golftölvuleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Bale eins og hann lítur út í PGA Tour 2K23.
Gareth Bale eins og hann lítur út í PGA Tour 2K23. PGA Tour 2K23

Gareth Bale, einn besti fótboltamaður sinnar kynslóðar, virðist ætla að öðlast nýtt líf eftir ferilinn sem kylfingur.

Bale er mikill golfáhugamaður og undir lok ferilsins virtist hann vera meira fyrir golfið en fótboltann. Og eftir að hann lagði skóna á hilluna hefur hann nægan tíma til að spila golf.

Walesverjinn keppti meðal annars á BMW PGA Championship Celebrity Pro-Am mótinu þar sem hann var í ráshópi með Rory McIlroy. Hann mætti til leiks með 0,5 í forgjöf sem telst skrambi gott.

Nú er ekki bara hægt að horfa á Bale spila golf heldur er einnig hægt að spila með hann í tölvuleiknum PGA Tour 2K23. Ekki nóg með það heldur er einnig hægt að spila á draumavelli sem Bale hannaði sjálfur.

Á samfélagsmiðlum tölvuleiksins mátti sjá myndbrot af því þegar Bale var „skannaður“ inn í leikinn og talaði inn á hann.

Bale hefur nóg að gera á golfvellinum en seinna í þessum mánuði mun hann keppa ásamt tenniskappanum Novak Djokovic í stjörnuleik Ryder-bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×