Skoðun

Ekki einn dropi einka­væddur í Lands­virkjun

Lilja Dögg Alfreðsdóttir skrifar

Allar götur frá stofnun árið 1965 hefur Landsvirkjun í almannaeigu verið burðarás í íslensku atvinnulífi og stuðlað að nýtingu orkuauðlinda landsins til að standa undir aukinni verðmætasköpun í íslensku efnahagslífi. Virkjanir og orkumannvirki eru vandasamar stórframkvæmdir sem fólk hefur sterkar skoðanir á og snerta samspil við náttúruvernd, byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Þrátt fyrir umdeilt eðli virkjanaframkvæmda, tel ég að það sé þó eitt sem mikil meirihluti þjóðarinnar geti verið sammála um: að Landsvirkjun verði áfram í fullri samfélagslegri eigu.

Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið losi um hluti í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti, nú síðast í þættinum Dagmál á vefnum MBL. Þar viðraði forstjóri Kauphallarinnar leiðir til þess að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, meðal annars með að ríkið seldi 20% hlut í Landsvirkjun sem væri til þess fallið að laða að erlenda fjárfesta bæði vegna stærðar félagsins en einnig vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun.

Ég get tekið undir með forstjóra Kauphallarinnar að það sé mikilvægt að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, dýpka hann, fjölga félögum og stuðla að skilvirkari verðmyndum íslenskra fyrirtækja. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með fjölgun félaga í Kauphöllinni undanfarin ár sem gefur fólki fleiri kosti á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi með greiðum hætti.

Hins vegar er ég ósammála forstjóra Kaupahallarinnar að Landsvirkjun eigi að vera kostur í því að dýpka hlutabréfamarkaðinn til þess að laða að erlenda fjárfesta, meðal annars einmitt vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun hér á landi og því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir fyrir land og þjóð. Í raun er það hvellskýrt í mínum huga og okkar í Framsókn: það verður ekki einn vatnsdropi einkavæddur í Landsvirkjun. Um slíka ráðstöfun yrði aldrei samfélagsleg sátt á Íslandi, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum okkar til framtíðar.

Það er skoðun mín að almennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þessum atvinnurekstri, en það er engum vafa undirorpið að opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í. Þess vegna á ekki að ráðast í breytingar eignarhaldinu, breytinganna vegna. Ég er sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frekari orkuöflun til að standa undir aukinni lífsgæðasókn í landinu, enn traustari ríkisfjármálum og þeim grænu orkuskiptum sem stuðla þarf að í þágu loftslagsmála. Þar getum við Íslendingar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höldum rétt á spilunum, með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.

Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×