Skoðun

Þræðir lands og þjóðar

Sigríður Hrund Pétursdóttir skrifar

Gott munstur einkennist ekki einungis af útliti og áferð heldur einnig hversu vel það þolir áreynslu, hnjask og hversu vel það prjónast saman. Munstur er enn fremur vandmeðfarið eftir gerð þráða því grófir þræðir magna upp og einfalda munstur á meðan fínir þræðir bjóða upp á flóknari útfærslur og gætu verið viðkvæmari. Íslenska ullin er til að mynda einstök því munstur í ullarpeysum læsast saman eftir nokkur votveður, sem þéttir brjóstbekkinn og ullarpeysan nær hámarks ætlaðri virkni – að veita vörn og halda hlýju og yl á eigandanum.

Sama má segja um þræði lands og þjóðar. Við náum ekki góðu samfélagsmunstri nema taka tillit til þeirra þráða sem þjóðin spinnur hverju sinni. Við þurfum að ganga saman áveðurs bæði í raun veðrum sem öðrum áskorunum samtímans og þá skiptir undirbúningur ekki einungis máli heldur einnig viðhorf. Það þýðir lítið að státa sig af áferðarfögrum þjóðarbrag ef hann markast einvörðungu af útliti og áferð – innihaldið er það sem skiptir máli. Hvað þarf til að þétta brjóstbekkinn, þjappa þjóðarsálinni saman og mynda góða vörn fyrir eðlilegum taktföstum váveðrum?

Prjónfesta er hér lykilhugtak. Það er hversu fast er prjónað – eða styrkleika iðkunar. Munstur verður aldrei endingargott né áferðarfagurt sé það þvingað eða losaralegt. Sé undirbúningur aftur á móti góður, skilningur á eðli þráða, rými gefið til mátunar, þolinmæði, natni, mýkt, þolinmæði og þrautseigja – má ætla að niðurstaðan verði með ágætum og helst framúrskarandi.

Gefum okkur rými til að hlusta á ólík sjónarmið því þannig gerum við okkur betur grein fyrir hvaða þráðum samfélagið er gert úr. Framúrskarandi góð samfélagsleg ullarpeysa með einstöku endingargóðu munstri mun læsa þráðum saman, þola áreynslu, hnjask og hvers konar votviðri því við gáfum okkur rými til að móta flíkina saman í sátt og samlyndi.

Höfundur er fjárfestir, prjónakona og fyrrverandi formaður FKA.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×