Umfjöllun og viðtöl: Valur - HK 4-1 | Valsmenn öruggir í 2. sæti

Dagur Lárusson skrifar
Það hefur gengið illa hjá Val í síðustu leikjum.
Það hefur gengið illa hjá Val í síðustu leikjum. vísir/Diego

Valur tók á móti HK í 22. umferð Bestu deildar karla í dag. Þetta var lokaumferðin áður en mótinu verður tvískipt. Heimamenn í Val sigruðu afar sannfærandi 4-1 eftir skemmtilega leik í rokinu á Hlíðarenda.

Valsmenn komust yfir á 13. mínútu leiksins og þar var að verki Birkir Heimisson sem skoraði með flottu skoti rétt fyrir utan teig eftir góða sókn Vals. Hlynur Freyr Karlsson átti þá langa sendingu inn fyrir vörn HK sem Kristinn Freyr tók listavel á móti og var í leiðinni mættur einn á móti Arnar Frey Ólafssyni, markmanni HK. Arnar Freyr sá við Kristni en Aron Jóhannesson náði frákastinu og lagði boltann út á Birki sem skoraði með laglegu skoti í bláhornið.

Valur var áfram sterkari aðili leiksins og hélt áfram að þjarma að marki HK sem áttu í vök að verjast og gekk illa að skapa sér færi.

Heimamenn náðu að tvöfalda forystu sína rétt fyrir hálfleik en það gerði Aron Jóhannsson og aftur eftir að hafa unnið bolta númer tvö í teignum. Tryggvi Hrafn Haraldsson vann þá boltann á góðum stað og tókst að þræða Guðmund Andra Tryggvason í gegn. Arnar Freyr varði skot hans en Sigurður Egill Lárusson náði frákastinu og lagði boltann á Aron Jóhannsson sem skoraði af stuttu færi. Staðan í hálfleik því 2-0 fyrir Val.

HK sótti með vindi í seinni hálfleik sem virtist þó lítið hjálpa liðinu því áfram voru það Valsarar sem voru sterkari aðili leiksins. Valur skoraði þriðja markið eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik. Það gerði Birkir Már Sævarsson eftir stórglæsilega sókn sem hann byrjaði sjálfur. Birkir gaf boltann á nafna sinn Birki Heimisson og lagði svo af stað í sóknina. Birkir Heimisson gaf á Patrick Pedersen sem tók á móti boltanum, sneri og þræddi Birki Má, Vindinn sjálfan, í gegn sem skoraði auðveldlega.

Um tíu mínútum seinna skoraði svo Patrick Pedersen fjórða markið og það með þrumufleyg fyrir utan teig. Boltinn sveif yfir Arnar Frey og þaðan í netið. Stórglæsilegt mark þó ég sé nú nokkuð viss að Arnar hefði viljað gera betur þarna.

Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð en gestirnir náðu þó að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins og það gerði Atli Arnarson eftir slæm mistök í vörn Vals. Eftir smá dans á teignum reyndi Haukur Páll að skalla boltann í burtu en tókst ekki betur en að skalla hann beint fyrir Atla Arnarson sem skoraði auðveldlega af stuttu færi.

Niðurstaðan hér á Hlíðarenda því góður 4-1 sigur heimamanna.

Af hverju vann Valur?

Liðið var einfaldlega miklu betra á öllum sviðum leiksins hér í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Öll sóknarlína Vals var flott í dag og liðið hefði hæglega getað skorað fleiri mörk. Patrick Pedersen var virkilega flottur í dag. Birkir Már Sævarsson og Aron Jóhannsson áttu sömuleiðis góðan dag hjá Val.

Hvað gekk illa?

Pressan hjá HK hefði sennilega þurft að ganga betur í dag til þess að liðið hefði náð í punkt hér. Það sást snemma leiks að liðið ætlaði að reyna að þjarma vel að Svein Sigurði í marki Vals þegar hann fengið boltann í lappirnar en þetta var bara of máttlaust og gekk ekki nægjanlega vel eftir.

Hvað gerist næst?

Það er komið að því að tvískipta deildinni. HK fer í neðri hlutan þar sem liðið mun sennilega ekki berjast um mikið annað en 7. sætið og Forsetabikarinn góða. Valur er á leið í efri hluta deildarinnar og þarf á algjöru kraftaverki að halda til að ná Víkingum sem eru með 9 fingur á skyldinum góða. Valur tekur á móti Stjörnunni næst 17. september klukkan 19:15. HK fær Fram í Kórinn mánudaginn 18. september klukkan 19:15.

Ómar: „Auðvitað er það draumur að hann myndi einhvern tímann spila fyrir mig og spila aftur fyrir HK“

Ómar Ingi Guðmundsson er þjálfari HK.Vísir/Hulda Margrét

Ómari Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var vonsvikinn með leik sinna manna í dag þegar hann mætti í viðtal eftir leik.

„Svekkjandi og leiðinlegt hvernig leikurinn þróaðist í það að við værum komnir 4-0 undir. Í hvert skipti sem við duttum úr sambandi þá skoruðu þeir mark. Mér fannst að þegar við gáfum þeim færi á okkur þá skoruðu þeir. Auðvitað voru þeir mikið með boltann en ég held að þeir hafi nýtt bæði mómentin sem að við duttum á hælana í fyrri hálfleiknum. Þetta er gæðamikið lið og þegar þú spilar við þá er ekki ein sekúnda þar sem þú getur misst einbeitinguna og gleymt þér.“

Bræður börðust hér í dag því Orri Sigurður Ómarsson, leikmaður Vals, er bróðir Ómars Inga. Ísak Aron Ómarsson er svo þriðji bróðirinn en hann leikur með HK og kom inn á í leiknum líkt og Orri Sigurður gerði. En hvernig er það að sjá litla bróður koma inn á fyrir hitt liði?

„Mér finnst ekki þægilegt að hann sé í hinu liðinu sérstaklega þar sem hann er varnarmaður og maður er svona að vonast til þess að hann geri mistök. Maður er búinn að vonast til þess í einhver 20 ár, bæði þjálfandi hann í yngri flokkunum og horfandi á hvern einasta leik hjá honum að hann geri ekki mistök. Þetta er skrítin staða að vera í.“

Einhverjir möguleikar á því að hann spili fyrir HK á næsta tímabili?

„Nei nei, hann á samning í eitt ár í viðbót hjá Val en auðvitað er það draumur að hann myndi einhvern tímann spila fyrir mig og spila aftur fyrir HK en ég held að það sé ekki að fara að gerast alveg strax sýnist mér er spurning hvort það verði eitthvað pláss fyrir hann Ísak Aron heldur áfram að þróast.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira