Handbolti

Styttist í endurkomu Hauks og EM er möguleiki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haukur Þrastarson í leik með íslenska landsliðinu.
Haukur Þrastarson í leik með íslenska landsliðinu. vísir/getty

Það styttist í endurkomu hin 22 ára gamla Hauks Þrastarsonar, leikmanns handboltaliðsins Kielce í Póllandi.

Í frétt á vef Kielce, borgarinnar en ekki félagsins, er greint frá því að það styttist í endurkomu Hauks sem og annars leikmanns liðsins. Þar segir að þó miðjumaðurinn frá Selfossi geti ekki hjálpað Kielce í fyrstu umferðum pólsku deildarinnar þá styttist verulega í að hann snúi aftur á gólfið. Haukur sleit krossband í hné í annað sinn undir lok árs 2022.

Endurhæfingin gengur vel og nú er aðalmarkmiðið að koma Hauki aftur í æfingar með liðinu. Ætti hann að vera orðinn leikfær eftir mánuð eða tvo samkvæmt Tomasz Mlosiek, sjúkraþjálfara liðsins.

„Allt hefur gengið samkvæmt áætlun, við höfum yfir engu að kvarta,“ sagði Mlosiek í viðtali við vefinn.

Endurkoma Hauks yrði ekki aðeins góð fyrir Kielce heldur einnig íslenska landsliðið ef hann nær fyrri styrk. Þessi 22 ára gamli miðjumaður er talinn mikið efni og gæti hirt miðjustöðuna í landsliðinu verði Gísli Þorgeir Kristjánsson ekki klár þegar EM hefst í janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×