Viðskipti innlent

Vara við net­svikurum á Booking.com

Magnús Jochum Pálsson skrifar
CERT-Is hefur varað fólk við netsvikurum sem reyna að svindla á fólki á bókunarsíðunni Booking.com.
CERT-Is hefur varað fólk við netsvikurum sem reyna að svindla á fólki á bókunarsíðunni Booking.com. Samsett

Netöryggissveit íslenskra stjórnvalda, CERT-IS, varar við netsvikurum á Booking.com. Árásaraðilar hafi þar komist yfir aðganga gististaða og sendi pósta á fólk sem eigi bókaða gistingu á stöðunum með það að markmiði að svíkja út fé.

CERT-IS greinir frá þessu í tilkynningu á vef sínum.

Svindlunum er lýst þannig að skilaboð berist frá gististað (sem séu í raun send af árásaraðilum) þess efnis að greiðslukorti viðtakanda hafi verið hafnað eða ekki staðist öryggisprófun í bókunarkerfi og sé því ógilt.  

Bókun viðkomandi hjá gististaðnum sé því í húfi og verði felld niður ef ekki er brugðist við innan sólahrings.

Til að koma í veg fyrir það er viðtakandinn beðinn um að smella á hlekk sem gefinn er upp í skilaboðunum og staðfesta kortaupplýsingar þar. Viðtakanda er sömuleiðis tilkynnt að það sem verði dregið af kortinu verði strax endurgreitt.

Hvetja fólk til að horfa gagnrýnum augum á skilaboð

CERT-IS hvetur alla sem eiga bókaða gistingu í gegnum Booking.com að horfa gagnrýnum augum á skilaboð sem berast í gegnum bókunarsíðuna. 

Vitað sé til þess að árásaraðilarnir svari spurningum eða athugasemdum þeirra sem svara skilaboðunum. 

Þá segir að ef vafi leikur á hvort skilaboð komi frá gististaðnum sjálfum sé alltaf hægt að fara beint inn á heimasíðu gististaðarins og hafa samband við hann beint, til dæmis í gegnum símanúmer eða netfang sem þar eru gefin upp.

Að lokum minnir CERT-IS alla rekstraraðila gististaða á Íslandi að setja upp fjölþátta auðkenningu á aðgang sinn á Booking.com, sem og aðra aðganga. Fjölþátta auðkenning geri árásarhópum mun erfiðara fyrir að taka yfir aðganga.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×