Neytendur

Þurfa ekki að fjarlægja mynd af roða á hálsi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Heilbrigðisráðuneytinu leist ekkert á ákvörðun Lyfjaeftirlitsins.
Heilbrigðisráðuneytinu leist ekkert á ákvörðun Lyfjaeftirlitsins. vísir/vilhelm

Heilbrigðisráðuneyti hefur fellt úr gildi ákvörðun Lyfjastofnunar sem gerði umboðsmanni lyfsins Septabene að fjarlægja mynd af roða í hálsi og ljósan borða á umbúðum lyfsins. Taldi ráðuneytið ákvörðunina ekki samræmast jafnræðisreglu þar sem fjöldi annarra lyfja væru áletruð með sambærilegum myndum. 

Umboðsmaður lyfsins LYFIS ehf. kærði ákvörðun Lyfjastofnunar í september á síðasta ári.

Septabene er munnúði og munnsogstafla sem er ætlað að draga tímabundið úr einkennum óþæginda í hálsi, munni og tannholdi og fyrir og eftir tanndrátt. Deilt var um mynd sem sýnir manneskju með roða á hálssvæði og hvort myndin teljist ólögmæt auglýsing samkvæmt lyfjalögum.

Lyfjastofnun taldi að umbúðirnar væru til þess fallnar að „hafa áhrif á læsileika áletrana og draga athygli frá lögbundnum upplýsingum“.

Lyfið umrædda.skjáskot

Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytis segir að myndinni sé ætlað að vekja athygli á verkunarstað lyfsins, sem sé heimilt samkvæmt reglugerð. Ekki sé ljóst hvaða sjónarmið Lyfjastofnun hafi lagt til grundvallar ákvörðunar sinnar. Reglugerðin veiti ótvíræða heimild til að áletra lyfjaumbúðir með myndum og táknum sem séu í samræmi við reglugerð. 

LYFIS lagði einnig fram fjölda mynda af öðrum lyfjum með sambærilega áletrun. Taldi ráðuneytið ljóst að slíkar myndir hafi verið áletraðar á umbúðir lyfja án þess að Lyfjastofnun hafi talið þær vera í ósamræmi við lög. Með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga var því talið að LYFIS yrði ekki gert að fjarlægja myndina. Auk þess var ekki talið að um auglýsingu sé að ræða, hvorki hvað varðar myndina né borðann. 

Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×