Viðskipti innlent

Sæta­nýtingin 86 prósent en stund­vísin undir mark­miðum

Atli Ísleifsson skrifar
Farþegar í millilandaflugi hjá Icelandair voru 493 þúsund í júní, 21 prósent fleiri en í júní í fyrra.
Farþegar í millilandaflugi hjá Icelandair voru 493 þúsund í júní, 21 prósent fleiri en í júní í fyrra. Vísir/Vilhelm

Heildarfjöldi farþega Icelandair var 519 þúsund í nýliðnum júnímánuði, 20 prósent fleiri en í júní í fyrra þegar farþegar voru 431 þúsund. Samtals hafa 1,8 milljónir farþega ferðast með félaginu á fyrri helmingi ársins, 31 prósent fleiri en á sama tímabili í fyrra.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Icelandair til Kauphallar. Þar kemur fram að farþegar í millilandaflugi hafi verið 493 þúsund, 21 prósent fleiri en í júní í fyrra þegar 407 þúsund flugu með félaginu. Þar af hafi 43 prósent verið á leið til Íslands, 13 prósent frá Íslandi og 44 prósent verið tengifarþegar. 

„Stundvísi í millilandaflugi var 67%, sem er undir markmiðum félagsins. Sætanýting var 86% en framboð í júní jókst um 22% miðað við fyrra ár. Mikil eftirspurn hefur verið á Norður-Ameríkumarkaði og var sætanýting í flugi til og frá Norður-Ameríku 90% sem er mesta sætanýting sem verið hefur hjá félaginu í júnímánuði.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var 25 þúsund. Sætanýting í innanlandsflugi var 78,8% og stundvísi var 91%, töluvert betri en í sama mánuði í fyrra.

Fraktflutningar jukust um 51% á milli ára, aðallega vegna aukningar í fraktflugi yfir Norður-Atlantshafið með tilkomu tveggja Boeing 767 breiðþota í fraktflota félagsins. Seldir blokktímar í leiguflugi voru 5% fleiri en í sama mánuði í fyrra,“ segir í tilkynningunni.

Starfsfólki fjölgar

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að sumarið hafi byrjað af krafti hjá félaginu með yfir hálfa milljón farþega í júnímánuði. 

„Starfsfólki félagsins hefur fjölgað umtalsvert að undanförnu og tókst hópnum vel til við að halda uppi öflugu leiðakerfi félagsins í mánuðinum. Við höldum áfram að sjá mikinn áhuga á ferðum til Íslands og til marks um það var slegið met í sætanýtingu til og frá Norður-Ameríku.

Þessi mikli áhugi á ferðum til Íslands er afrakstur öflugs markaðsstarfs ferðaþjónustunnar á Íslandi. Icelandair er leiðandi í því markaðsstarfi og það er ánægjulegt að segja frá því að við fengum á dögunum alþjóðleg verðlaun fyrir viðburð í London þar sem við, ásamt öflugum samstarfsaðilum, bjuggum til íslenska upplifun og buðum almenningi í heimsókn,“ segir Bogi Nils.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×