Viðskipti innlent

Ferðamenn eyða langmestu í gistingu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Regnbogastígurinn er vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna.
Regnbogastígurinn er vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna. vísir/vilhelm

Af kortaveltu erlendra ferðamanna sést að gistiþjónusta er sá útgjaldaliður sem jókst langmest það sem af er ári. Ferðamenn eyða sem stendur langmestu í gistingu en verslun kemur næst þar á eftir. 

Þetta kemur fram í hagsjá Landsbanksans þar sem kortavelta erlendra ferðamanna, á fyrstu fimm mánuðum ársins, er skoðuð. Kortveltan hefur aldrei verið meiri í þremur helstu gjaldaliðum, það er gistiþjóunustu, veitingaþjónustu og verslun. 

Kortaveltan á fyrstu fimm mánuðum ársins nam 108 milljörðum króna en var 73 milljarðar á sama tíma í fyrra. Tekið er fram að fyrstu mánuðir síðasta árs lituðust af faraldrinum. Árið 2019 var kortaveltan 104 milljarðar króna.

Eins og áður segir hefur kortaveltan aukist langmest í gistiþjónustu og nemur á fyrstu mánuðum ársins 29 milljörðum króna. Í fyrra nam kortaveltan í gistiþjónustu 14 milljörðum en 21 milljarður var veltan árið 2019.

Hér að neðan má sjá kortaveltu eftir helstu útgjaldaliðum á föstu verðlagi milli ára.

Verslun er næststærsti útgjaldaliður kortaveltu og greiðslur í verslunum námu um 17 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins. Hún nær til dæmis yfir verslun í stórmörkuðum, fataverslun, gjafa- og minjagripaverslun og tollfrjálsa verslun. Veitingaþjónusta kemur þar á eftir þar sem kortavelta nam um 16 mö.kr á fyrstu fimm mánuðum ársins. 

„Síðustu ár hafa úttektir á reiðufé dregist saman jafn og þétt,“ segir í hagsjánni.

Þá kemur einnig fram að meðalkortavelta á hvern ferðamann á föstu gengi sé ennþá meiri en fyrir faraldur, sem þýðir að hver ferðamaður eyðir að meðaltali meiri pening í sínum gjaldmiðli en fyrir faraldur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×