Körfubolti

Bjóða körfurnar vel­komnar heim

Árni Sæberg skrifar
„Sjaldan hef ég orðið vitni að annarri eins vitleysu,“ sagði íbúi í Seljahverfi um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að taka körfuboltakörfur á lóð Seljaskóla niður yfir sumartímann. Hann tók gleði sína fljótt á ný.
„Sjaldan hef ég orðið vitni að annarri eins vitleysu,“ sagði íbúi í Seljahverfi um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að taka körfuboltakörfur á lóð Seljaskóla niður yfir sumartímann. Hann tók gleði sína fljótt á ný. EINAR GUTTORMSSON

Körfuknattleiksdeild ÍR hefur boðað til körfuboltamóts í dag við Seljaskóla til þess að fagna því að körfunum var skilað á körfuboltavöllinn við skólann.

„Stjórn Körfuknattleiksdeildar ÍR þakkar innilega íbúum, kjörnum fulltrúum og öðrum sem að verkinu komu. Fyrir að leggja sitt á plóginn til að fá körfurnar í Seljaskóla aftur á sinn stað. Við teljum það mikil gleðitíðindi hversu mikið völlurinn er sóttur og ber starfið okkar einnig merki um aukinn áhuga á körfu. Stjórn styður við þær hugmyndir að setja upp notkunarreglur við völlinn og vonast eftir að okkar fólk verði til fyrirmyndar á svæðinu.“ segir í færslu á Facebooksíðu deildarinnar.

Gríðarlega athygli vakti þegar körfurnar voru teknar niður af útsendurum borgaryfirvalda á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Það var sagt vera vegna hávaðakvartana frá nágrönnum Seljaskóla. Í kjölfar umfjöllunar um málið kvörtuðu íbúar enn hærra og körfunum var skilað á sinn stað.

Í fréttatilkynningu um mótið segir körfunum hafa verið skilað vegna samstillt átaks íbúa og kjörinna fulltrúa, og ekki megi gleyma fjölmiðlum, sem vöktu athugli á málinu.

Keppt verður í fjölda aldursflokka í körfuboltaleiknum stinger, þar sem keppendur raða sér í röð fyrir framan eina körfu og sá sem fremst stendur þarf að koma bolta í körfuna á undan næsta keppanda á eftir, ellega dettur hann úr leik.

„Þetta verður létt og skemmtileg Stingerkeppni þar sem aðalatriðið er að skemmta sér vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×