Viðskipti innlent

Spyr hvort Hreyfli sé heimilt að meina bíl­stjórum að skrá sig hjá Hopp

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sæunn segir að Hopp ætli sér að bæta íslenskan leigubílamarkað.
Sæunn segir að Hopp ætli sér að bæta íslenskan leigubílamarkað. Vísir

Fram­kvæmda­stjóri Hopp leigubíla segist ekki rang­túlka lög um leigu­bíla líkt og fram­kvæmda­stjóri Hreyfils hefur haldið fram. Stöðva­skylda sem fram­kvæmda­stjórinn vísi til hafi breyst og nú megi leigu­bíl­stjórar vera skráðir á fleiri en einni stöð og vera sjálf­stætt starfandi. Hún spyr sig hvort Hreyfill megi í raun meina bíl­stjórum sínum að skrá sig hjá Hopp.

Til­efnið eru um­mæli Haraldar Axels Gunnars­sonar, fram­kvæmda­stjóra Hreyfils, sem sagði í gær að hann teldi Sæunni Ósk Unnsteinsdóttur fram­kvæmda­stjóra Hopp leigubíla rang­túlka ný­leg lög um leigu­bíla. Sæunn hafði sagt í kvöld­fréttum Stöðvar 2 að engin stöðvar­skylda væri við lýði enn­þá, nú mættu allir vinna með öllum.

Haraldur sagði Sæunni rang­túlka lögin. Rekstrar­leyfis­höfum beri að hafa af­greiðslu á leigu­bif­reiða­stöð, þó rekstrar­leyfis­hafa sé heimilt að reka leigu­bif­reiða­stöð án starfs­leyfis sé við­komandi með eina bif­reið.

„Ég er ekki að túlka lögin á rangan hátt. Gamla löggjöfin skyldaði meðal annars leyfishafa til að hafa leigubílaakstur sem meginatvinnu og að viðkomandi sé tengdur leigubílastöð. Nýju lögin veita það frelsi að þú getir starfað sem rekstrar­leyfis­hafi fyrir þig sjálfan, þú getur rekið einn bíl eða fleiri og síðan geturðu starfað fyrir aðrar leigu­bíla­stöðvar,“ segir Sæunn í sam­tali við Vísi.

Hún segir að Hopp leigubílar hafi fengið til­skilin leyfi frá Sam­göngu­stofu til leigu­bíla­reksturs og leggur á­herslu á að fyrir­tækið komi ekki inn á markaðinn með skætingi eða til þess að skaða markaðinn heldur til að bæta hann.

„Með Hopp appinu keyra leigu­bíl­stjórar sem eru með leyfi á fleiri en einni stöð og það má. Túlkunin snýst um að það er ekki takmörkun og stöðvar­skylda en þú mátt hins vegar vera á fleiri en einni stöð en þú mátt líka vera sjálf­stætt starfandi, sem í rauninni eru þau öll.“

Mark­miðið að bæta markaðinn

Sæunn rifjar upp að breytingar á lögum á leigu­bíla­markaði hafi verið gerðar eftir að stjórn­völd voru á­minnt fyrir samnings­brot gegn EES samningnum vegna þá­verandi laga­um­hverfis á leigu­bíla­markaði.

„Fyrri löggjöf hamlaði úthlutun á atvinnuleyfum og krafðist þess að viðkomandi væri tengdur leigubílastöð. Það er grunnurinn að þeim breytingum sem voru gerðar vegna þess að slíkar hamlanir og tak­markanir eiga ekki heima í deili­hag­kerfi. Það er okkar mark­mið að deila og nýta og koma fólki á milli staða með betra skipu­lagi en áður hefur sést, með okkar Hopp tækni.“

Að­spurð hvort hún hafi skoðun á því að Hreyfill leyfi sínum bíl­stjórum ekki að skrá sig hjá Hopp segir Sæunn: „Má það? Það væri gaman ef það færi fram ein­hver um­ræða um það.“ Vísir hefur sent Sam­göngu­stofu fyrir­spurn vegna málsins.

Fjöldi bíl­stjóra frá öðrum leigu­bíla­fyrir­tækjum

50 leigu­bíl­stjórar hafa skráð sig hjá Hopp. Fram­kvæmda­stjóri Hreyfils sagði við mbl.is í gær að enginn þeirra bíl­stjóra væri frá fyrir­tækinu. Spurð hvaðan þeir koma segir Sæunn:

„Leigu­bíl­stjórarnir sem keyra með Hopp eru bæði sjálf­stætt skráðir rekstrar­leyfis­hafar hjá Sam­göngu­stofu og þeir eru að vinna fyrir aðrar leigubílastöðvar eins og City Taxi og Taxi Service og eru atvinnuleysishafar sem starfa undir okkar rekstrarleyfi. Það eru nefni­lega fleiri stöðvar til en bara Hreyfill,“ segir Sæunn.

„En svo fer þetta líka eftir því hvort þú sért að keyra á mæli eða með fyrirframákveðnu gjaldi. Þar liggur munur sem mikilvægt er að minnast á en með Hopp appinu eiga sér einungis stað rafræn viðskipti. Hopp heldur úti þeirri gagnaöflun sem Samgöngustofa setur skilyrði um til að hafa starfsleyfi og til þess þarf góðan tæknibúnað.“

Hún segir leigubílstjóra geta unnið með þá tækni sem þeir kjósi, líkt og Hopp í þessu tilviki.

Og keyra þá líka á­fram undir merkjum hinna fyrir­tækjanna?

„Já. Svo eru þau bara á ferðinni og grípa ferðirnar þegar þær koma. Við vitum líka sem er að hug­búnaðurinn okkar á eftir að ná langt því hann er svo hag­kvæmur fyrir leigu­bíl­stjóra og nýtnin svo mikil. Tæknin eykur nýtinguna og bíl­stjórinn fær aðra ferð til baka þegar hann fer eitt­hvert og þarf ekki endi­lega að keyra með tóman bíl til baka til að sækja ein­hvern annan.“

Enn of margar hindranir

Þá segir Sæunn að stjórn­völd hafi lagt upp með að mark­miðið með breytingum á lög­gjöf um leigu­bíla­akstur væri að auka hlut­fall leigu­bíl­stjóra í hluta­starfi.

„Það er til að mynda risa­stórt at­riði sem þarf að ræða að það eru enn of miklar hömlur á því að ein­staklingar geti sinnt þessu starfi í hluta­starfi,“ segir Sæunn og nefnir námið sem til þarf og trygginga­mál.

„Þar eru tryggingar sér­stak­lega fyrir­ferða­miklar vegna þess að trygginga­fé­lögin hafa ekki verið að grípa boltann og breyta um­hverfinu þannig að hægt sé að nýta bíla í hluta­starfi undir leigu­bíla­akstur en verð á iðgjöldum er gríðarlega hátt.“


Tengdar fréttir

Frumvarpið sem leigubílstjórar óttast orðið að lögum

Leigubílafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra var samþykkt nú síðdegis með 38 atkvæðum. Tíu þingmenn sögðu nei. Frumvarpið rýmkar skilyrði sem þarf til að reka leigubíl, meðal annars með því að afnema reglur um heildarfjölda starfsleyfa.

Reiðin kraumar í leigu­bíl­stjórum

Leigubílstjórar fordæma ný lög um leigubifreiðar og segja ítrekuð aðvörunarorð hafa verið hunsuð. Þeir efast um öryggi almennings og segja peningahyggju ráða för. Þrátt fyrir að reiðin kraumi í leigubílstjórum beri þeir enn von í brjósti.

Hopp fer í leigubílarekstur

Rafskútu- og deilibílaleigan Hopp hefur ákveðið að hefja leigubílarekstur. Ný lög um leigubílarekstur tóku gildi í dag og hefur stöðvarskylda verið afnumin, sem gerir leigubílstjórum kleift að keyra fyrir fleiri en eina stöð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×