Viðskipti innlent

Bíl­stjórar Hreyfils megi ekki aka fyrir Hopp

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Framkvæmdastjóri Hreyfils leggur ekki sama skilning í ný lög um leigubíla líkt og framkvæmdastjóri Hopp.
Framkvæmdastjóri Hreyfils leggur ekki sama skilning í ný lög um leigubíla líkt og framkvæmdastjóri Hopp. Vísir/Vilhelm

Fram­kvæmda­stjóri Hreyfils segir að fyrir­tækið sam­þykki ekki að leigu­bíl­stjórar sem hafi stöð­var­pláss á Hreyfli keyri fyrir aðrar stöðvar líkt og Hopp á sama tíma. Hann segir fram­kvæmda­stjóra Hopp rang­túlka lög um leigu­bíla.

Þetta kemur fram í svörum Haraldar Axels Gunnars­sonar, fram­kvæmda­stjóra Hreyfils, við fyrir­spurn Vísis. Til­efnið eru orð Sæunnar Óskar Unn­steins­dóttur, fram­kvæmda­stjóra Hopp, sem hvatti leigu­bíl­stjóra til að skrá sig hjá Hopp, sem hóf starf­semi á leigu­bíla­markaði í gær.

„Það er enginn stöðvar­skylda, það mega allir vinna með öllum. Ég trúi því að fleiri fari að vinna á fleiri stöðum og þá finnur fólk hvernig markaðurinn er búinn að velja sér. Við munum ekki leysa leigu­bíla­vandann, þennan föstu­dags- og laugar­dags­vanda á nokkrum dögum. Við erum að byrja með stóran hug­búnað og það tekur tíma að ná þessu jafn­vægi. Við hvetjum alla leigu­bíl­stjóra til að hafa sam­band við okkur og fólk að skrá sig í leigu­bíl­stjóra­nám,“ sagði Sæunn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. 

Segir stöðvar­skyldu enn við lýði

Rýmkuð lög­gjöf á leigu­bíla­markaði tók gildi í apríl og var gagn­rýnd af for­manni Banda­lags leigu­bíl­stjóra. Til­kynnti Hopp um leið að fé­lagið hyggðist hefja inn­reið á markaðinn í kjöl­farið.

Haraldur Axel Gunnars­son, fram­kvæmda­stjóri Hreyfils, segir að rekstrar­leyfis­hafi eigi að hafa af­greiðslu á leigu­bif­reiða­stöð, þó rekstrar­leyfis­hafa sé heimilt að reka leigu­bif­reiða­stöð án starfs­leyfis sé við­komandi með eina bif­reið.

„Þannig að stöðvar­skylda er enn við lýði og við­komandi rekstrar­leyfis­hafi þarf að fram­selja stöðinni skyldur sínar, þ.e. varðandi rakningu á ferðum og eftir­lit með því að af­leysinga­bíl­stjórar sem aka fyrir við­komandi rekstrar­leyfis­hafa hafi til­skilin leyfi,“ skrifar Haraldur í svari sínu til Vísis.

Segir um að ræða rang­túlkun

„Að mínu mati þá rang­túlkar hún lögin en í lögunum stendur orð­rétt í 12.grein: „Rekstrar­leyfis­hafi skal hafa af­greiðslu á leigu­bif­reiða­stöð sem fengið hefur starfs­leyfi hjá Sam­göngu­stofu.“

Hann segir Hreyfil því ekki sam­þykkja að þeir bíl­stjórar sem hafi stöð­var­pláss á Hreyfli keyri fyrir aðrar stöðvar á sama tíma.

„Þetta er ekkert nýtt að greiða fyrir leigu­bíl með appi og hefur verið hægt að gera það á Hreyfli í þó nokkurn tíma. Einnig hefur verið hægt að gefa bíl­stjórum stjörnu­gjöf.“

50 leigu­bílar komnir til Hopp

Í til­kynningu frá Hopp sem barst Vísi á þriðja tímanum kemur fram að 50 leigu­bíl­stjórar hafi þegar skráð sig til að aka undir merkjum fyrir­tækisins og geti því saman­lagt keyrt yfir þúsund ferðir með far­þega.

Þar segir meðal annars að Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra hafi nýtt sér þjónustu fyrir­tækisins í dag. Haft er eftir ráð­herranum í til­kynningunni að hún fagni aukinni sam­keppni á leigu­bíla­markaði.

Þá er haft eftir Sæunni Ósk að leigu­bíl­stjórar greiði engin stöðvar­gjöld hjá Hopp heldur að­eins þjónustu­gjöld. „Við bjóðum öll vel­komin að slást í hópinn. Þú mátt keyra fyrir okkur og aðra á sama tíma. Þannig nýtir þú betur vinnu­tímann og fjár­festinguna sem liggur í bílnum.“

Fréttin hefur verið upp­færð með nýrri til­kynningu frá Hopp.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×