Handbolti

Fær Erlingur refsingu fyrir viðtalið? „Þetta er ljótur leikur“

Hjörtur Leó Guðjónsson og Einar Kárason skrifa
Erlingur Richardsson var langt frá því að vera sáttur við dómgæsluna í kvöld.
Erlingur Richardsson var langt frá því að vera sáttur við dómgæsluna í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var allt annað en sáttur eftir sex marka tap liðsins gegn Haukum í þriðju viðureign liðanna í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Erlingur var stuttorður í viðtali eftir leik, en virtist senda dómurum leiksins nokkrar pillur.

„Við gerðum allt. Mótlætið náttúrulega er bara svolítið mikið í þessum leik,“ sagði Erlingur að leik loknum.

„Ég vildi svo sannarlega að Kristinn Óskarsson væri handboltadómari,“ bætti Erlingur við og vísar þá í körfuboltadómarann Kristinn Óskarsson.

Erlingur var líflegur á hliðarlínunni hjá ÍBV í kvöld, enda þótti honum, eins og mörgum Eyjamönnum í húsinu, halla á sína menn í dómgæslu. Til að mynda fengu liðsmenn ÍBV tíu tveggja mínútna brottvísanir, en Haukar fengu sína fyrstu eftir 45 mínútna leik. Hann vildi þó ekki tjá sig um hvaða atvik í leiknum hann væri að tala um.

„Það er ykkar hlutverk,“ sagði Erlingur einfaldlega.

„Mér finnst þetta bara ljótur leikur. Ekki handboltanum til sóma.“

Þeir Henry Birgir Gunnarsson og Arnar Daði Arnarsson lýstu leik ÍBV og Hauka í kvöld og þeir virtust slegnir yfir ummælum Erlings.

„Jahérna hér. Þetta var stórfurðulegt viðtal Arnar Daði. Maður er bara hálf sleginn eftir þetta viðtal,“ sagði Henry.

Arnar gekk þó lengra og velti fyrir sér hvort Erlingur gæti mögulega verið á leið í bann.

„Hann er brjálaður og ég skil hann mæta vel, en hann verður að halda haus og mér finnst ekki ólíklegt að þessi ummæli hans gætu farið fyrir borð aganefndar. Hann talar um að þetta sé ljótur leikur og er þá í raun að tala um að dómararnir hafi reynt að hafa áhrif á það hvernig leikurinn fór,“ sagði Arnar Daði, en viðtalið og umræðuna eftir það má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Erlingur Richardsson eftir ÍBV-Haukar

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.