Viðskipti innlent

Flogið frá Akureyri til Sviss í vetur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Farþegar sem fljúga frá Sviss til Akureyrar og öfugt eiga von á hvítri jörð við brottför og komu.
Farþegar sem fljúga frá Sviss til Akureyrar og öfugt eiga von á hvítri jörð við brottför og komu. Markaðsstofa Norðurlands

Svissneska ferðaskrifstofan Kontiki hefur ákveðið að bjóða upp á vetrarferðir til Norðurlands næsta vetur, í beinu flugi frá Zürich. Þetta er í fyrsta sinn sem ferðaskrifstofan býður ferðir beint til Norðurlands, en hún hefur töluverða reynslu af því að selja ferðir til Íslands allt árið um kring. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Þar segir að boðið verði upp á vikulegar ferðir í febrúar og mars á næsta ári „og því ljóst að um töluverða innspýtingu er að ræða fyrir norðlenska vetrarferðaþjónustu yfir vetrartímann, sem er í takti við þær áherslur sem Markaðsstofa Norðurlands hefur unnið að á undanförnum árum.“

„Kontiki hefur einsett sér að stuðla að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu á Norðurlöndum og hefur tekið virkan þátt í henni. Til að sýna það í verki höfum við ákveðið að hefja þetta verkefni á Norðurlandi með sjálfbærni efst á blaði í samvinnu við Markaðsstofu Norðurlands. Markmiðið er að efla áfangastaðinn Norðurland, lengja dvöl þeirra ferðamanna sem þangað koma og efla heilsársþjónustu, með hag heimamanna og ferðamanna að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu frá svissnesku ferðaskrifstofunni.

Á síðasta ári voru Markaðsstofa Norðurlands og Kontiki í samstarfi í verkefni um sjálfbæra þróun áfangastaðarins Norðurlands. Var haldin vinnustofa í Hofi á Akureyri sem fulltrúar Kontiki stjórnuðu.

„Áherslur Kontiki ríma mjög vel við áherslur norðlenskrar ferðaþjónustu um aukna uppbyggingu yfir vetrartímann, sem stuðlar að fjölgun heilsársstarfa í ferðaþjónustu og minni árstíðasveiflu. Fyrirtæki á Norðurlandi fá þarna tækifæri til að stuðla enn frekar að sjálfbærri ferðaþjónustu, sem mun koma öllu samfélaginu til góða,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×