Fjörutíu og þrú ár eru liðin frá því að Federicia komst síðast í undanúrslit deildarinnar árið 1980, margir af núverandi stuðningsmönnum liðsins voru því ekki fæddir þegar að félagið fetaði þá þann stíg sem nú er orðinn aftur að veruleika.
Árin þar áður varð Federicia, þá sem Federicia KFUM, danskur meistari fimm ár í röð. Fyrst með Flemming Hansen og svo Michael Berg í fararbroddi hvað markaskorun varðar.
Formaður Federicia segir markmiðinu, sem stjórnendur félagsins settu fram árið 2014, hafa verið náð tveimur árum á undan áætlun.
„Markmiðið var að koma Federicia aftur á þann stað að geta keppt til verðlauna árið 2025. Við stöndum hér árið 2023 og eigum möguleika á titli. Það eru forréttindi,“ sagði Bent Jensen, formaður Federicia í viðtali við staðarblaðið í Federicia.
Jensen segir að Federicia hafi undanfarna áratugi verið sofandi björn sem hafi nú vaknað. Liðið sé ekki bara komið á góðan stað heldur standi samfélagið í Federicia nú þétt við bakið á liðinu.
Federicia fékk frábæran stuðning á útivelli í leik sínum gegn Skanderborg um nýliðna helgi. Yfir 500 stuðningsmenn Federicia gerðu sér ferð norður til Skanderborg til þess að hjálpa sínu liði að tryggja sér sæti í undanúrslitum.
Segja má að gengi Federicia í dönsku úrvalsdeildinni eftir áramót sé það sem hafi tryggt liðinu sæti í úrslitakeppni deildarinnar til að byrja með.
Federica endaði í 7. sæti deildarinnar, það veitti sæti í úrslitakeppninni en þar hóf liðið keppni með 0 stig.
Fjórir sigrar, eitt jafntefli og aðeins eitt tap varð til þess að liðinu tókst að tryggja sér annað sæti síns riðils með níu stig og sæti í undanúrslitum deildarinnar. Fram undan er einvígi við Álaborg.