Skoðun

Hunda- og katta­hald í fjöl­býlis­húsum

Tinna Andrésdóttir skrifar

Í lögum um fjöleignahús er kveðið á um að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi sé háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. Þá segir að þegar hvorki er um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða er samþykkis annarra eigenda ekki þörf fyrir hunda- og kattahaldi í húsinu. Á það til dæmis við þegar sérinngangur er í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum en þegar sameiginlegur stigagangur er utanáliggjandi og gengið er inn í íbúðir af svölum þarf samþykki þeirra eiganda sem hann tilheyrir. Lögin fjalla því nokkuð vel um hvað telst sérinngangur og hvað ekki. Þrátt fyrir það hefur sú túlkun verið algeng að svalahurð á jarðhæð húsa, t.d. við sólpall eða sérafnotaflöt, teljist sem sérinngangur inn í íbúð og þar af leiðandi þurfi ekki samþykki meðeiganda fyrir hunda- og kattahaldi í þeirri íbúð.

Fjölmörg mál koma inn á borð Húseigendafélagsins þegar kemur að dýrahaldi og samþykki annarra eigenda vegna þess. Í áliti kærunefndar húsmála nr. 102/2020 var um það deilt hvort að samþykki annarra eigenda þurfi fyrir hundi í íbúð á jarðhæð fjöleignarhúss. Voru uppi loforð eigenda íbúðarinnar um að nota ekki sameiginlegan inngang hússins fyrir dýrið heldur nota svalahurð íbúðarinnar til að fara með dýrið inn og út úr íbúðinni. Var krafan sú að svalahurð geti ekki talist sérinngangur í skilningi laga um fjöleignarhús. Kærunefnd húsamála féllst á þá kröfu og taldi að svalahurð geti ekki talist sérinngangur. Var í niðurstöðu nefndarinnar fjallað um að samkvæmt samþykktum teikningum hússins er aðalinngangur að íbúðinni sameiginlegur með öðrum íbúðum hússins. Taldi nefndin að þegar túlka eigi lögin við mat á því hvort íbúð sé með sameiginlegan inngang eða ekki, verði að horfa til samþykktra teikninga en ekki hvort það sé unnt að komast inn og út úr íbúðinni með öðrum hætti, svo sem í gegnum svalahurð eða hurð sem opnast út á sérafnotaflöt.

Niðurstaða kærunefndar húsamála er ekki bindandi og verður ágreiningsefninu ekki skotið til annars stjórnvalds en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla. Mál þetta fór ekki fyrir dómstóla og því er litið til niðurstöðu þessarar þegar túlka á hvað telst til sérinngangs íbúðar.

Nú á dögunum birtist frétt um ágreining í fjöleignarhúsi vegna hunds sem þar dvelur. Hundurinn kom í húsið eftir að systir íbúðareiganda lést úr krabbameini. Málavextir eru þeir að í húsinu eru þrír stigagangar og sameiginlegur kjallari. Samþykki hefur fengist hjá þeim sem deila stigagangi með hundinum en ekki þeim sem deila sameiginlegum inngangi í kjallara hússins. Er málið nú hjá kærunefnd húsamála. Í þessu máli er óhjákvæmilegt er að horfa til niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 102/2020 sem fjallað var um hér að ofan. Ljóst er að samkvæmt teikningum er kjallari hússins ekki aðalinngangur að íbúðinni þótt unnt sé að komast þar inn og út úr húsinu. Væri því samþykki 2/3 eigenda í þeim stigagangi sem hundurinn dvelur nóg í þessu tilviki.

Höfundur er lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×