Viðskipti innlent

1,4 milljarða hagnaður hjá Össuri á fyrsta árs­fjórðungi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Össur er með höfuðstöðvar á Grjóthálsi í Reykjavík.
Össur er með höfuðstöðvar á Grjóthálsi í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Hagnaður fyrirtækisins Össur á fyrsta ársfjórðungi nam tíu milljónum dollara, 1,4 milljarði íslenskra króna. Er það átta prósent aukning frá síðasta ári. Sala á ársfjórðungnum nam 25,7 milljörðum króna. 

Þetta kemur fram í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs fyrirtækisins. Þar segir að innri vöxtur hafi verið níu prósent í ársfjórðungnum.

Á fyrsta ársfjórðungi var innri vöxtur þrettán prósent í sölu á stoðtækjum, fimm prósent á spelkum og stuðningsvörum og átta prósent í þjónustu við notendur. 

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir að teknu tilliti til einskiptisliða (EBITDA) nam fjórum milljörðum króna, eða sextán prósent af veltu ársfjórðungsins. 

Fjárhagsáætlun Össurar gerir ráð fyrir fjögur til átta prósent innri vexti, sautján til tuttugu prósent EBITDA framlegð og virku skatthlutfalli á bilinu 23 til 24 prósent. 

„Við sjáum jákvæða þróun í rekstrarhagnaði þrátt fyrir neikvæðar gengisbreytingar og verðbólgutengdan vöxt í kostnaði. Í lok mars héldum við fjárfestadag í Kaupmannahöfn þar sem við kynntum nýja tekjuskiptingu sem inniheldur þrjú tekjusvið í stað tveggja; stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur, og þjónusta við notendur,“ er haft eftir Sveini Sölvasyni, forstjóra Össurar, í tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×