Erlent

Hætt við geimskot JUICE vegna eldingahættu

Samúel Karl Ólason skrifar
Ariana 5 eldflaug verður notuð til að koma JUICE út í geim og af stað til Júpíters.
Ariana 5 eldflaug verður notuð til að koma JUICE út í geim og af stað til Júpíters. ESA

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) ætla í dag að skjóta geimfarinu JUICE af stað til Júpíters. Þar á geimfarið að kanna reikistjörnuna og þrjú stór ístungl Júpíters, sem heita Ganýmedes, Kallistó og Evrópa. Vegna stærðar JUICE mun ferðalagið þó taka átta ár.

UPPFÆRT: Geimskotinu hefur verið frestað til morguns, vegna hættu á eldingum. Reyna á aftur klukkan 12:14 á morgun.

Eftir að JUICE verður skotið á loft líður þriggja mánaða tímabil þar sem ganga á úr skugga um að vísindabúnaður geimfarsins virkar. Það verður svo í ágúst á næsta ári sem geimfarið á að nýta þyngdarafl tunglsins og jarðarinnar til að auka hraða sinn.

Geimfarið mun einnig nýta þyngdarafl Venusar og fara svo annan hring um jörðina til að auka hraða sinn og ná til Júpíters. Vonast er til þess að ferðinni ljúki í júlí 2031. Þá á rannsóknarvinnan að standa yfir í minnst fjögur ár.

Hér má sjá upplýsingar um langt ferðalag JUICE til Júpíters.ESA

JUICE verður skotið á loft frá Frönsku- Gvæjana í Suður-Ameríku og á geimskotið að eiga sér stað klukkan 12:15 að íslenskum tíma.

Hægt er að fylgjast með geimskotinu í spilaranum hér að neðan en útsendingin hefst 11:45.

Næstu daga eftir geimskotið, fari það eins og vonast er, munu vísindamenn ESA vinna að því að koma sólarsellum og loftnetum JUICE í gagnið. JUICE er meðal annars búið nákvæmum myndavélum og skynjurum og geta áhugasamir fundið frekari upplýsingar um búnað geimfarsins hér á vef ESA.

Mikil áhersla lögð á Ganýmedes

Þegar JUICE nær til Júpíters vonast vísindamenn til þess að geta fundið vísbendingar um það hvort mögulegt sé að líf megi finna á tunglum Júpíters, þar sem talið er að finna megi vatn í miklu magni undir ísilögðu yfirborðinu.

Talið er að á Ganýmedes, Kallistó og Evrópu megin finna allt að sex sinnum meira vatn en á jörðinni.

Geimfarið verður notað til að greina þessi tungl og gægja undir yfirborðið svo auka megi skilning vísindamanna á því hvernig tunglin mynduðust á sporbraut um gasrisan Júpíter og hvort þar megi finna jarðvirkni.

Mikil áhersla verður lögð á Ganýmedes en tunglið er það eina í sólkerfinu sem talið er vera með eigin segulsvið. Annars eru einungis jörðin og Merkúr með segulsvið sem meðal annars verndar reikistjörnurnar gegn skaðlegri geislun frá sólinni.

Frekari upplýsingar um helstu markmið JUICE má finna hér á vef ESA.

Áhugasamir munu geta fylgst með ferðalagi JUICE á samfélagsmiðlum eins og hér að neðan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×