Viðskipti innlent

Ein hóp­upp­sögn skráð í mars

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vinnumálastofnun barst ein tilkynning um hópuppsögn í síðasta mánuði.
Vinnumálastofnun barst ein tilkynning um hópuppsögn í síðasta mánuði. Vísir/Vilhelm

Vinnumálastofnun barst einungis ein tilkynning um hópuppsögn í mars. Þá var 28 starfsmönnum sagt upp í verslunarstarfsemi. 

Sú uppsögn var gerð hjá Heimkaup líkt og Vísir greindi frá í síðasta mánuði. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins sagði uppsagnirnar vera fylgikvilla endurskipulagningar innan fyrirtækisins. Um var að ræða 28 starfsmenn í 24 stöðugildum.

Hópuppsögn Torgs, sem rak Fréttablaðið, DV og tengda miðla, telst ekki sem hópuppsögn í mars þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um endalok blaðsins þann 31. mars. 

„Vinnumálastofnun hafði ekki fengið tilkynningu um hópuppsögn frá Torg ehf. þegar starfsemi Fréttablaðsins var hætt. Í 3. gr. laga nr. 63/2000 um hópuppsagnir segir að ákvæði 7. gr. laganna um tilkynningar til Vinnumálastofnunar og 1. mgr. 8. gr. um breytingar á uppsagnarfresti eigi ekki við þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar. Samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Reykjavíkur var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 4. apríl,“ segir í skriflegu svari Vinnumálastofnunnar við fyrirspurn fréttastofu vegna málsins. 

Með hópuppsögn er átt við uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum þar sem fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 21-99 í vinnu, minnst 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100-299 í vinnu eða minnst 30 starfsmenn þar sem venjulega eru 300 eða fleiri.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×