Skoðun

Er til­gangurinn æðri en hamingjan?

Ástþór Ólafsson skrifar

Ég horfði á Kastljós fyrir nokkru síðan þar sem Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri landlæknisembættisins og doktor í sálfræði, fjallar um hvernig við eigum að finna hamingju í lífinu. Í samtalinu setur spyrilinn Bergsteinn Sigurðsson fram: „Þegar vísindamenn byrjuðu að rannsaka hamingjuna þá var talið að áhyggjulaust líf að komast hjá mótlæti og erfiði að það væri lykilinn að hamingjunni en síðan kemur bara í ljós að þessu er eiginlega þveröfugt farið, það er eiginlega mótlætið sem gerir okkur kleift að upplifa hamingjuna.“ Þessu svarar Dóra Guðrún Guðmundsdóttir: „Þetta varð eiginlega kveikjan að því, þegar ég heyrði um þetta, ég var að lesa um þetta fyrir 20 árum síðan að ég fór að stúdera hamingju frekar. Það er ekki það að erfiðleikarnir gera okkur hamingjusöm bara svona í sjálfum sér heldur hvernig við tökumst á við erfiðleikana, er í rauninni bara kjarninn, munurinn á þeim sem eru hamingjusamir og ekki, er hvernig við tökumst á við erfiðleika í lífinu og mótlæti, þá er bara náum við, höfum við verkfæri, höfum hugarfarið til að takast á við þá mótlætið á uppbyggilegan hátt, þá náum við að vera hamingjusöm.“ (sjá frétt Að verða hamingjusöm).

Þarna vakna upp spurningar: 1) Þarf fólk þá að upplifa erfiðleika til að verða hamingjusöm eða er hægt að verða hamingjusöm óháð erfiðleikunum? 2) Hvort skiptir meira máli að vera hamingjusöm eða finna tilgang? 3) Getum við verið hamingjusöm ef við finnum ekki tilganginn? 4) Er hægt að finna hamingju eftir mótlæti eða er það tilgangurinn sem drífur hamingjuna áfram eftir mótlætið eða öfugt?

Þetta eru margar spurningar og eiga þær eftir að verða fleiri þegar líður á lesturinn enda viðfangsefnið víðfeðmt og nær til allra sem eru að reyna að skilja lífið og lifa því eins og höfundur sjálfur. Um þetta hafa hugsuðir eins og Búdda, Jesús Kristur, Sókrates, Platón, Epikúrían o.s.frv. rætt og ritað (Tarnas, 1996). En til að vera nær í okkar tíma væri Carl Jung, sálgreinandinn og geðlæknirinn (1875-1961) viðeigandi viðfangsefni. En Jung velti mikið fyrir sér hvernig væri hægt að finna hamingju og tilgang þrátt fyrir að tvennt myndi ógna vestrænu samfélagi. Hið fyrsta eru kjarnorkuvopn og hið seinna trúarbrögð. Hann vildi meina þetta tvennt bæri með sér dökkt ský yfir meðvitund mannsins og myndi bæla hans siðferði niður. Einnig taldi hann að þetta myndi skapa forsendur fyrir tilgangsleysi og hættu á því að fáránleikinn tæki öll völd (Jung, 1958). Þess má geta að fjarstæðustefnan eða fáránleikinn (e. absurdism) var áberandi á milli stríðsáranna og eftir seinni heimsstyrjöldina. En stefnan sjálf fjallar um að lífið sé tilgangslaust og af hverju ekki að eyðileggja sjálfan sig (Frankl, 2004). Enda var mikil óvissa um hvort að heiminum yrði tortímt eða ekki. En þessi orð Jung af þessu tvennu sem ógnar vestrænu samfélagi eru yfirvofandi ógnir og algjör bælingar öfl. Vegna þess að það er ófrávíkjanleg niðurstaða að halda annað enda stýrir þetta stríðum víðsvegar um heiminn með óseðjandi krafti. En með tímanum hefur umræðan færst yfir á að þrátt fyrir þessar óhjákvæmilegu ógnir þá eigum við að reyna að vera hamingjusöm og finna tilgang í lífinu. Að huga að hversdagslegum hlutum eins og að sinna vinnu, stofna fjölskyldu, mennta okkur, tengjast vinum, sinna áhugamálum, vinna í sjálfum okkar o.s.frv. Enda hálf tilgangslaust að reyna að hafa áhrif á þetta tvennt þegar gífurlegir hagsmunir og fjármunir liggja þar að baki.

En þá er við hæfi að velta fyrir sér hvernig við í nútíma samfélagi finnum hamingju og tilgang í lífinu á meðan þessar ógnir steðjar að okkur: kjarnorkuvopn og trúarbrögð. En við erum kominn lengra í framþróuninni og búum við betri kjör, tækifæri og aðstæður en þegar Jung var að velta þessu fyrir sér. En það sem ógnar okkur í dag undir þessu öllu saman er að finna hamingju og tilgang í samfélagi þar sem neysluhyggjan ræður ríkjum og þar sem hraðar breytingar á upplýsingum, væri ágætis dæmi. Þetta gerir það að verkum að við erum stöðugt að klæðast markaðshyggjunni sem er að verða að okkar persónuleika og að sama skapi eru upplýsingar í ótal líkindum þannig erfitt að aðskilja lygina frá sannleikanum. En þetta tvennt neysluhyggjan og blekking á upplýsingum býr til fáránleikann í nýjum fötum eins og nýjustu föt keisarans. En samkvæmt sálgreinandanum og geðlækninum Viktor Frankl sem setti fram þá hugmynd að við getum lifað merkingarbæru lífi og fundið tilgang í fáránleikanum, hver sem hann er. Þrátt fyrir þessar ógnir þá getum við fundið merkingu fyrir einhverju þýðingarmiklu í okkar lífi. Hann vill meina að við eigum að kafa djúpt ofan í okkar sálarlíf og spyrja okkur erfiðra spurninga til þess eins og ögra okkar tilvist. Sagnfræðingurinn Rutger Bregman kemur fram með þá hugmynd að erfitt sé að finna hamingju í dag þegar lífið orðið snýst um að vera stöðugt á hamstrahjólinu til að svara þörfum og kröfum atvinnulífsins. Hann veltir fram þeirri hugmynd um hvort að við mannfólkið gætum fundið öflugri tilgang í lífinu ef við myndum búa við frítíma sem myndi veita okkur svigrúm til að skapa tengsl í lífinu sem honum finnst vera minni af og mætti auka.

Ég ætla að tæpa á þessum tveimur hugmyndum s.s. Frankl og Bregman til að skoða hvernig við eigum að finna tilgang og vera hamingjusöm í nútímasamfélagi. Gott að hafa bak við eyru orð Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur um að finna hamingjuna í dag eftir mótlæti og hvernig þetta rennur saman við hugmyndir þeirra beggja.

Að finna tilganginn

Viktor Frankl (1905-1997) gaf út bókina „Leitin af tilganginum“ eða „Man´s search for meaning“ um miðbik 20. aldarinnar. Í þessari bók leggur hann áherslur á að við eigum að lifa eftir húmanískri tilvistarstefnu (e. humanistic existentialism) sem er andstæða fáránleikans og snýst meira um að finna tilgang í lífinu sem veitir okkur aðgang að hamingju í heildstæðari merkingu. En Frankl finnst fáránleikinn vera sjálfmiðuð hugmynd og skilur ekki hvernig mannfólkið eigi að lifa í von um vonleysið þar sem tilgangsleysið er augljóslega niðurstaðan. En til að undirstrika hans hugsun betur þá var Frankl fangi í útrýmingarbúðum nasista og lifði af þessa hrottalegu tíma. Það gerði það að verkum að honum langaði að fanga aðra hugsun sem væri merkingarbærri og hefði sterkari undirstöðu fyrir fjölbreytileika lífsins með tilliti til tilgangsins. Hann horfir í baksýnisspegilinn og velta því fram hvernig maður finnur tilgang í eins miklum fáránleika eins og þessar útrýmingarbúðir voru. Hann leggur mikið upp úr því að fyrir það fyrsta og seinna er það vonin og að trúa, að vona og trúa því að þessi veruleiki sé eingöngu tímabundinn og áður en maðurinn veit þá er þessi tími yfirstaðinn. Í framhaldi af því þá telur hann að tilgangurinn sé margskonar en hver og einn þarf að finna sinn tilgang. Hann veltir líka upp þeirri hugmynd að hamingjan getur ekki verið einhver áfangastaður til að sækjast eftir þegar við erum stödd í óreiðukenndu ástandi þar sem hamingjan er fjarstæðukennd (Frankl, 2004).

Þarna er Frankl að vitna í útrýmingarbúðirnar sem geta varla verið staður til að finna hamingju. Þá má velta þessu yfir á nútíma samfélag sem að einhverjum hluta tengist útrýmingarbúðunum í veraldlegu samhengi en við erum meira ómeðvituð um hvar þær séu að eiga sér stað en vissulega höfum við heyrt af slíku eða vitum til um. En Úkraína, Rwanda, Palestína, fátækrahverfin í BNA o.s.frv koma sterklega í huga. Í framhaldi af þessu má spyrja sig nokkra spurninga eins og „Hvernig á fólk í fátækt að vera hamingjusamt í samfélagi sem snýst um neysluhyggju?“, „Hvernig getur fólk orðið hamingjusamt þegar upplýsingar um hvað veitir hamingju er nánast endalaust?“ og „Gæti verið að hamingjan sé meira sem eftir á hyggja þegar tilgangurinn hefur fengið sitt svigrúm í lífi viðkomandi þannig að viðkomandi er kominn í betri aðstæður í lífinu? Þarna koma fram enn fleiri spurningar enda eðli málsins samkvæmt þar sem viðfangsefnið er eins flókið og að vera staddur í völundarhúsi sem er stútfullt af speglum. Erfitt að átta sig á hvar maður er staddur og hvert maður getur farið.

Hvernig finnur maður hamingju og tilgang í þessum fáránleika?

Eins og hefur komið fram þá var Frankl mótfallinn hugmyndinni um fáránleikann og taldi að þessi hugmynd gæti eingöngu náð að uppfylla tilgangsleysið þar sem hvatinn fyrir því að hamingjan fengist með einhverjum augnablikum en húmanísk tilvistarstefnan næði meira til varanlegs tilgangs. Til að skilja betur hugsun Frankl þá tekur hann eitt dæmi í bókinni (Frankl, 2004) sem fjallar um tvær konur á sjötugsaldri sem eru staddar á hópfundi sem Frankl heldur og það væri alveg hægt að spegla þetta frá öðrum kynjum og aldri. Ein þeirra hefur lifað lífinu, ferðast um heiminn og hefur verið umvafin mönnum og átt með þeim gæða stundir. Líf hennar hefur snúist um að sitja á svamli og njóta lífsins til hins ýtrasta. Hin konan hefur átt erfiðari líf enda alið upp tvö stráka þar sem einn þeirra lést á ungum aldri á meðan annar þeirra lifði af. Þessi sem lést var heilbrigður strákur á meðan hinn var ekki eins heilbrigður enda í hjólastól alla sína ævi, að hennar sögn. Þarna spyr Frankl báðar konurnar hvor ykkar hefur þjónað meiri tilgangi í lífinu? Fyrsta konan segir að hún hafi séð heiminn og skapað mikið af minningum. Á meðan seinni konan taldi að lífið væri þungbært og þetta væri ekki sældarlíf. Frankl spyr hvort ykkar líf hafi meiri þýðingu? Þarna svarar seinni konan að hennar líf sé búið að vera erfitt en að ala upp son sem er í hjólastól hefur gefið lífinu sterkari merkingu. Fyrri konan áttar sig hægt og rólega á því að hennar líf sé búið að vera skammtíma stundir, minningar á hraðbergi og lítið situr eftir. Segir svo í kjölfarið að hún sjái eftir því að hafa ekki eignast börn því þau gætu núna séð um hana í ellinni. Seinni konan telur að líf sitt sé búið að vera merkingarbært enda sé hún búin að læra að lifa og elska son sinn sem hefur verið í hjólastól. Lært sömuleiðis að lifa án sonar síns sem lést ungur. Hún sé búin að fórna miklum af sínum tíma og læra hvað lífið getur verið fallegt þrátt fyrir sársaukann.

Þarna notar Frankl þessar tvær sögur til að styðja við hugmyndir um fáránleikann og húmanísku tilvistarstefnuna. Fáránleikinn bjó til mikla hamingju og sældarlíf um tíma en tilgangurinn varð að sterkari merkingu þegar uppi var staðið í lífinu. Þannig var hamingjan hjá fyrstu konunni tilgangslaus eða var það hjá seinni konunni að tilgangurinn var skortur á hamingju?

Hér er ég eingöngu að draga fram brot af þeirri mynd sem mótar hugmyndir Frankl en hvernig hann horfir á lífsins veg er mjög athugunarvert. Hann vill meina að lífið sér meira en leiftursminningar þar sem tilefnið er sældarlífið heldur sé meiri tilgangur í erfiðinu því þar snertum við á hversu megnug manneskjan er. Að lifa lífinu þrátt fyrir áföll, mótlæti eða þann sársauka sem á sér stað er þess virði. Sumum finnst þetta vera sódómísk hugsun að það sé fegurð í þjáningunni eins og við eigum að lifa til að þjást. En Frankl var að koma frá seinni heimsstyrjöldinni þannig ekkert skrýtið að hann horfir á lífið frá þessu sjónarhorni. En hann er eingöngu að fá okkur til að rýna dýpra ofan í sálarvitund okkar þannig við séum ekki að láta erfið verkefni aftra okkur þannig að við séum ekki að festast í viðjum þess og sökkvum dýpra og dýpra ofan í þar sem fáránleikinn fær sterkari vægi sem ýtir undir tilgangs- og hamingjuleysið.

Frítími og tengsl

Sagnfræðingurinn Rutger Bregman (1988) skrifaði bókina „Utopia for realists and how we can get there“ (Bregman, 2018). Spyr einfaldlega þá spurningu - hvort að frítíminn sé mesta ógn vestræns samfélags? Vegna þess að við höfum þróast sem samfélag í algjörri stöðnun samkvæmt hugmyndum Henry Ford (1863-1947) bílaframleiðandans. En Ford gerði rannsókn í kringum 1930 á sínu eigin starfsfólki og vildi skoða hvort að hvílt og stundir með fjölskyldunni myndi vera samasemmerki á aukinni framleiðslu í fyrirtækinu. Fyrirkomulagið á undan var að starfsfólk vann 6 daga vikunnar sem hann breytti í fimm daga vikunnar. Þetta varð til þess að framleiðslugeta fyrirtækisins jókst og starfsfólkið vann meira og betur þessa fimm daga heldur en þegar það vann 6 daga. Þarna spurði Ford starfsfólkið sitt hvernig þeim fyndist að vinna með þessum hætti? Svörin voru á þá leið að þau hefðu meiri tíma með fjölskyldunni, gætu sinnt börnunum, ræktað garðinn, lesið bækur og sinnt öðrum áhugamálum. Með þessu spáði Ford að í framtíðinni myndi fólk vinna minna vegna þess að það myndi auka framleiðslugetuna í samræmi við frítímann. Hann taldi meira segja að fólk væri í mesta lagi að vinna þrjá daga vikunnar.

Bregman veltir þessu fram á nútíma samfélag sem sýnir að við erum hvívetna að hlaupa stanslaust á hamstrahjólinu því það helgar tilganginn. Tilgangurinn er að verða ekki aðgerðarlaus því það markar tilgangsleysið. Það er búið að innleiða þessa hugsun að við séum háð vinnu okkar og þurfum þar af leiðandi að vera virk í vinnu. Þetta hefur aftur á móti skapað þær aðstæður að við erum hægt og rólega að missa tengsl við fjölskylduna, vini og höfum takmarkaðan tíma til að sinna áhugamálum eins og lýðheilsu málum t.a.m. Þarna má glöggva sig á því hvort að þessi stöðuga vinna og skortur á tengslum við fólk sé að gera okkur hamingjusöm eða ekki og hvort að við finnum tilgang með þessu fyrirkomulagi eða ekki?

En skoðum rökin sem Bregman kemur fram með áfram, en honum finnst erfitt að skilja einmitt að ef maðurinn myndi öðlast meiri frítíma þá yrði heilsu hans fórnað og hann myndi einangrast. Að það myndi skapa forsendur fyrir drykkju, ofbeldi, framhjáhaldi og algjöru siðleysi. En ef við rýnum betur í þetta og stöldrum aðeins við þarna og hugsum hvernig er þetta í hæstu stéttum samfélagsins? Er ekki verið að sinna vinnu svona eftir hentisemi, kíkja í ræktina, hitta vini yfir kaffibolla, lesa góða bók, bakað mögulega gott brauð og fá sér áfengi einungis til að drepa tímanum á dreif? Þannig þetta á sér stað og þá er spurning er ofdrykkja þarna? Ofbeldi langt fram eftir öllu? Er verið að halda framhjá maka eins og ekkert annað sé eðlilegra? Er algjört siðleysi að eiga sér stað? Þarna kemur ákveðin öfug rökhugsun fram því þetta er allt að gerast en líka þar sem fólk vinnur baki brotnu þannig hver er munurinn? Enginn! Þannig það er kannski ekki útópía að við öðlumst meiri frítíma til að fleiri geti reynt að styrkja tengsl sín við fjölskyldu, hitt vini og sinnt sínum áhugamálum. Eða er það sanngjarnt líf að fáir fái að njóta þess og aðrir verði að sætta sig að svona eru örlögin? Þarna má líka velta því fram hvort að hamingja og tilgangur sé meiri þar sem frítími og tengsl eru eða hvort að skerðing á frítíma og tengsl feli í sér meiri hamingju og tilgang?

En höldum áfram að skoða rökin hans Bregman sem sér þetta frá öðru sjónarhorni þar sem margir sálfræðingar, geðlæknar, félagsráðgjafar o.s.frv. koma fram með þá hugmynd að tengsl er grunnþátturinn í samfélaginu og ef engin tengsl eru þá verður lífið afskaplega tilgangslaust. Rannsókn (2001) Emmy Werner (1929-2017) og Ruth Smith (1928-2020) sýnir að fólk býr yfir seiglu vegna þess að tengsl eiga sér stað með einhverjum hætti. Það er verið að tengjast foreldrum, foreldri, ömmu, öfum, vinum, frænkum, frændum en síðan koma kennarar, þjálfarar o.s.frv. Með þessu má bæta því við að sálfræðingurinn Urie Bronfenbrenner (1917-2005) kom fram með hugmynd um lífkerfi samfélagsins. Hann taldi að allar samstæður samfélagsins myndu tengjast hverri manneskju hvernig sem væri á það litið (Bronfenbrenner, 1979). Þannig samkvæmt þessu þá myndu tengsl bætast ef við myndum eiga frítíma. Eins og Ford staðfesti á sínum tíma en hann lagði einmitt þessa hugmynd undir hagfræðinga sem sögðu honum að þetta væri galin hugmynd. En Ford var samfélagslegur hugsuður og taldi að ef hugað væri vel að fjölskyldunni þá mynda það haldast í hendur við aukin afköst í fyrirtækinu.

Skapar frítími forsendur fyrir tengsl og er þá auðveldara að finna tilgang og hamingju?

Þá er spurning hvort að þessi stöðuga vinna og skortur á tengslum við fólk sé að gera okkur hamingjusöm eða ekki og hvort að við finnum tilgang með þessu fyrirkomulagi eða ekki? En samkvæmt Ford og Bregman ásamt öðrum fræðimönnum þá er frítími og tengsl ríkjandi þáttur í lífi okkar þegar kemur að sameina atvinnulíf og heimili. Þannig þetta er í raun og veru engin ógnir heldur upplífgandi og ber með sér mikinn hvata fyrir hraustu sálarlífi. Þetta fyrirkomulag þekkist hjá mörgum stofnunum og fyrirtækjum en virðist ekki hafa tekið mikilli framþróun. Eins og segir hér að ofan þá spáði Ford því að fólk á 21. öldinni myndi vinna minna til að skapa meiri tíma með fjölskyldunni. Það hefur átt sér stað en ekki á jafnan máta. Þýðir það að Ford sé lélegur spámaður eða hafa ákveðin öfl unnið gegn þessari hugmynd? En það virðist vera eins og frítími og tengsl séu ógnvekjandi fyrirbæri. Vegna þess að atvinnulífið og hvernig það kemur fyrir ýtir ekki beint undir þetta fjölskylduvæna nema í hæstu stéttum samfélagsins. Ef við skoðum aðeins betur hvernig það virkar á íslandi. Þá fer það vart fram hjá að fæðingarorlof er sniðið að atvinnulífinu eins og börn séu að fæðast fyrir vinnumarkaðinn ekki sem samfélagslegur þroski. Fólk er að vinna baki brotnu til að hafa í og á, á meðan aðrir ekki. Fólki er haldið í fátækt til þess eins að innleiða þá sterku hugsun – að aðeins þeir sterku lifa af. Inn í þessu er verið að reyna koma barninu á leikskóla rétt eftir fæðingu eða í kringum eins árs aldur. Þarna bergmálar fæðingarorlof í tvö ár, statt og stöðugt! En hvað með það, það þarf að viðhalda stimpilklukkunni til að rjúfa ekki taktinn í hamstrahjólinu. Þannig með þessu fyrirkomulagi er verið hægt og rólega að aftengja fólk frá sínum fjölskyldum og börn eru farin að vera forsenda atvinnulífsins?

Ef við drögum hugmyndir Frankl inn í þetta þá eigum við að geta fundið tilgang þrátt fyrir allt streðið. En þá kemur önnur spurning væri ekki eðlilegra ef við hefðu meiri frítíma til að tengjast? Við gætum verið að skapa meiri tíma með fjölskyldunni, horft á börnin þroskast og dafna á meðan væri áhyggjulaus kaffibolli drukkinn? Það væri hægt að vinna í sjálfum sér, lesa góða bækur, spekúlera fram og aftur til þess eins að skilja sjálfan sig betur og heiminn. Það væri hægt að hitta vini oftar og spjalla um málefni líðandi stundar. Það væri hægt að rækta líkamlega heilsu, gefa sér tíma til að elda góðan og hollan mat. En við verðum að hafa í huga að Frankl var að koma frá seinni heimsstyrjöldinni þannig hann þurfti að finna einhverja leið til að efla sína vitund og finna tilgang í lífinu þrátt fyrir allt. Ef hann væri að koma fram núna myndi hann vera hlynntur tilgangi í áhyggjulausari veröld? Vegna þess að við sem allavega erum á íslandi búum í vestrænu samfélagi þar sem við þekkjum meira af forréttindum en að berjast fyrir mannlegum réttindum þótt það eigið við á einhverjum tímapunktum. Þannig af hverju eiga sumir skilið að geta notið sín í frítíma og tengst sínu nærumhverfi á meðan aðrir þurfa að sætta sig við afmarkaðan frítíma sem nær varla til að tengjast með einhverjum hætti? Af hverju má tilgangur lífsins ekki vera ekkert streð og meira af gæða stundum? Vegna þess að þeir sem stóðu fyrir seinni heimsstyrjöldinni höfðu það mjög gott. Lifðu í vellystingum með engar áhyggjur, drukku og borðuðu eins og lystin réð við. Höfðu nægan frítíma til að sinna fjölskyldu, börnum, vinum og áhugamálum. Frankl hefði ábyggilega vilja vera þeim megin við línuna mínus fasismi og stríð.

Hvernig eigum við þá að finna tilgang og hamingju í nútímasamfélagi?

Eftir þessa yfirferð með fjöldann allan af spurningum er viðeigandi að velta orðum Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur um að hamingjan komi frá því hvernig við tökumst á við mótlætið og hvernig við vinnum úr því. Þetta eru gild og góð rök enda get ég studd við þá kenningu að hamingjan kemur í kjölfarið á úrvinnslu á mótlæti. En á sama tíma getur hamingjan ekki ein og sér staðið storminn af sér vegna þess að tilgangurinn þarf að vera líka. Þá má velta því enn meira fyrir sér hvort að við getum orðið hamingjusöm í neysluhyggju samfélagi? Þarf ekki eitthvað annað að vera sem nær yfir breiðari og dýpri merkingu? Gæti það verið tilgangurinn? Vegna þess ef við horfum á nútíma samfélag varðandi stöðugt í vinnunni þá hlýtur það að gefa augaleið að hamingjan sé ekki endilega þar enda eins og hefur komið fram þá virðist tengsl fólks og frítími þess veita fólki meiri svigrúm fyrir hamingju og tilgangi eða hvað? Þetta með að frítími og tengsl virðist vera í meira lagi þegar við förum ofar í samfélagskeðjunni varðandi lífskjör. Þannig að frítími og tengsl eru orðin forréttindi þar sem eingöngu fáir njóta góðs af. Aftur á móti vakna upp enn fleiri spurningar að ofbeldi, vímuefnanotkun, framhjáhöld, siðleysi eigi sér stað bæði þar sem frítími og tengsl eru nóg og ekki. Þannig getur verið að tilgangurinn sé eftirsóknarverðari?

Það virðist vera samkvæmt Viktor Frankl sem horfir lítið á hamingjuna enda er erfitt að finna hamingju í fáránleikanum en að finna tilgang í honum er verðugri verkefni. Eins og hvernig á fólk í fátækt að vera hamingjusamt í samfélagi sem snýst um neysluhyggju?“ Þarna hefur tilgangurinn meiri vægi enda getur fólk búið við fátækt en haft tilgang sem sé að koma börnum sínum til menntunar svo að þau búi við betri aðstæður í framtíðinni eða mennta sig sjálf til að geta búið við betri aðstæður í framtíðinni. Önnur spurning „Hvernig getur fólk orðið hamingjusamt þegar upplýsingar um hvað veitir hamingju er nánast endalaust?“ Með þessu tvennu er hægt að horfa á að hamingjan er einhvers konar völundarhús í þessu upplýsingaflæði þar sem lygin er farin að hafa sterkari yfirhönd á yfirborðinu en andstæðan ríkir þegar á dýptina er litið. Þriðja spurning „Gæti verið að hamingjan sé meira sem eftir á hyggja þegar tilgangurinn hefur fengið sitt svigrúm í lífi viðkomandi þannig að viðkomandi er kominn í rólegri aðstæður?

Bregman hefur eitthvað til málsins að leggja en frítími og tengsl skapar ofbeldi, býr til aðstæður þar sem vímuefnanotkun er mikil, framhjáhöld er líka ekki víðs fjarri og siðleysið hvarvetna hvort sem horft er til lægra stéttar eða þeirri hærri. Eða eru þetta rök sem eru notuð til að bæla þessa hugmynd almennilega niður? En burt séð frá því, þá er það, að finna tilganginn sem hlýtur að standa ofar hamingjunni enda snýst tilgangurinn mjög oft um að hætta að stunda ofbeldi, hætta að nota vímuefni, byrja að mennta sig, vera ábyrgur gagnvart fjölskyldu sinni þar sem siðleysið fær ekkert svigrúm. Þannig að tilgangurinn virðist vera forsenda fyrir frítíma og tengslum enda þegar við finnum tilgang í fáránleikanum þá kemur hamingjan ósjálfrátt. Enda þegar tilgangurinn er fundinn þá flækist neysluhyggjan og upplýsingaflæðið ekki eins mikið fyrir okkur. Enda sagði Viktor Frankl: „Þau sem eru upptekin af því að svala þörfunum stöðugt, gera það vegna þess að þau hafa ekki fundið tilgang í lífinu“ (Frankl, 2004).

En hvernig sem við horfum á þetta þá þurfum við vissulega á vinnu að halda til að geta lifað í nútíma samfélagi og þá er spurning hvort að vinnan þjóni tilgangi sem helgar þá heildar hugmyndina að finna tilganginn er undanfari hamingjunnar í vestrænu samfélagi. Er þá tilgangurinn æðri en hamingjan?

Ég vil þakka Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur fyrir innleggið í Kastljósi vegna þess að ein hugmynd fæðir aðra hugmynd.

Höfundur er seigluráðgjafi


Heimildir:

Bregman, R. (2018). Utopia for realists and how we can get there. London: Bloomsbury Publishing.

Bronfenbrenner, U. (1979). The ecology of human development: Experiments by nature and design. Massachusetts: Harvard University Press.

Frankl, V.E. (2004). Man's search for meaning. London: Rider.

Jung, G.C. (1958). The undiscovered self. London: Routledge and Kegan Paul.

Tarnas, R. (1996). The Passion Of The Western Mind: Understanding the Ideas That

Have Shaped Our World View. London: Pimlico.

Werner, E.E., og Smith, R. (2001). Journeys from childhood to midlife: Risk, resilience and recovery. New York: Cornell University Press.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×