Skoðun

Leik­skóla­mál – eldri borgarar

Katrín J. Björgvinsdóttir skrifar

Eftir því sem mér skilst er nokkuð um það að eldri borgarar og eftirlaunaþegar séu í þeirri stöðu að gæta litlu barnanna sem fá ekki pláss á leikskólum, þar á meðal ég. Það var reyndar ekki meiningin að ég ætlaði mér það þegar ég hætti að vinna, en sú er raunin, þar sem þeir sem eiga að sjá um nægt leikskólapláss fyrir ungviðið eru ekki að standa sig.

Að detta í hug að það sé lausn að borga foreldrum fyrir að vera heima er fjarstæða í flestum tilvikum, fólk er tæplega að mennta sig og leita eftir vinnu við hæfi til þess að vera heima. Það ætti a.m.k. að vera val í nútíma samfélagi.

Pólitíkusar tala um manneklu á leikskólum og alls konar vangaveltur koma upp um það hvernig eigi að leysa þau mál – allt nema það að hugsanlega gæti virkað að greiða starfsfólkinu betri laun. Auk þess sem það er alveg makalaust að það þurfi að loka hverjum leikskólanum á fætur öðrum sökum skorts á viðhaldi, hvurs konar kæruleysi er það að láta þessa hluti drabbast niður?

Ég lít svo á að vandi foreldra ungra barna sé einnig okkar vandi sem eldri erum og skora því á þá eldri borgara sem eru í þeirri stöðu að sjá fram á að verða bundin yfir ungum börnum að leggja foreldrunum lið, t.d. með því að mæta með þeim í Ráðhúsið og krefjast aðgerða af hálfu borgaryfirvalda.

Atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin og stjórnvöld þurfa að koma þarna inn, það er allra hagur að hafa þessi mál í lagi.

Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að ég ætti eftir að stinga niður penna til að skrifa um leikskólamál, rígfullorðin manneskjan, en jú þannig er það bara.

Litlu börnin okkar eru ekki vandamál – sköpum þeim og foreldrum þeirra umhverfi sem er ásættanlegt fyrir alla – það er vel hægt ef allir leggjast á eitt.

Höfundur er eldri borgari.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.