Viðskipti innlent

Verð­bólgan þokast niður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Matvöruverð hefur farið hækkandi undanfarin misseri.
Matvöruverð hefur farið hækkandi undanfarin misseri. Vísir/Vilhelm

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59 prósent milli mánaða og fer verðbólgan á ársgrundvelli úr 10,2 prósent niður í 9,8 prósent. 

Þetta kemur fram í nýjum gögnum Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í mars 2023, er sem stendur í 580,7 stigum, en í maí árið 1988 voru stigin hundrað talsins, og hækkar um 0,59% frá fyrri mánuði.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 481,9 stig og hækkar um 0,52 prósent frá febrúar 2023.

Líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan hefur vísitala neysluverðs, það sem í daglegu tali er kallað verðbólga, farið hækkandi síðasta árið. 

Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 0,7 prósent (áhrif á vísitöluna 0,11 prósent), verð á fötum og skóm hækkaði um 4,3 prósent (0,14 prósent) og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,8 prósent (0,15 prósent). Verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. lækkaði um 1,7 prósent (-0,11 prósent).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,8 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 8,6 prósent.

Hin þráláta verðbólga hefur meðal annars gert það að verkum að Seðlabankinn hefur keyrt stýrivexti upp nokkuð skarpt undanfarin misseri. Fyrr í mánuðinum var tilkynnt um tólftu stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð. Eru þeir nú 7,5 prósent.

Lækkunin nú er nokkuð í takt við spár sérfræðinga, sem spáðu því að verðbólgan myndi fara lítillega niður á milli mánaða.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.