Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Haukar 77-72 | Fjórði sigur Grindvíkinga í röð

Siggeir Ævarsson skrifar
Ólafur Ólafsson var frábær í kvöld
Ólafur Ólafsson var frábær í kvöld vísir/daníel

Grindavík vann mikilvægan sigur á Haukum í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Þetta var fjórði sigur Grindavíkur í röð.

Varnarleikur Grindvíkinga var til fyrirmyndar en Kristófer Breki Gylfason fékk það hlutverk að líma sig á Darwin Davis Jr. og gerði honum lífið leitt löngum stundum. Munurinn á ákefð liðanna í vörn sést glöggt á villunum, Grindavík með 20 en Haukar aðeins tólf, þar af aðeins fjórar í fyrri hálfleik sem er hreint með ólíkindum.

Grindvíkingar náðu fljótt upp smávægilegu forskoti og leiddu í hálfleik með tíu stigum. Um það bil þar hélst svo munurinn nema þegar Haukar náðu einu sinni að minnka hann í sex stig, og svo þegar Darwin Davis Jr. setti síðustu körfu leiksins og minnkaði muninn í fimm.

Grindvíkingar fóru inn í lokaleikhlutann með tólf stiga forskot og létu sér nægja að skora aðeins níu stig á síðustu tíu mínútunum. Það er vissulega lítið en Haukar hefðu ekki hitt belju í kvöld þótt þeir hefðu haldið í halann á henni. Aðeins fimm þristar rötuðu rétta leið og nýtingin fyrir utan 17,9 prósent þegar upp var staðið.

Lokatölur 77-72 í leik þar sem maður hafði það á tilfinningunni að sigur Grindvíkinga væri aldrei í mikilli hættu. Þeir Damier Pitts og Gkay Skoridilis lentu báðir í villuvandræðum en það kom ekki að sök. Grindvíkingar rúlluðu þá bara á fjórum uppöldum leikmönnum og Zoran og Valdas í bland og náðu að halda sjó.

Munaði þar ekki síst um Nökkva Má Nökkvason, sem skellti í tvo þrista á ögurstundum en hann endaði með tíu stig á tæpum tólf mínútum. Grindvíkingar virðast hafa fundið taktinn á ný á hárréttum tíma, en Haukar þurfa aftur á móti að átta sig á að alvaran í úrslitakeppninni er handan við hornið, og það þýðir ekkert að væla þó það sé barið á manni.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir skelltu í lás og spiluðu með kassann út meðan að Haukar voru frekar litlir í sér og létu allt milli himins og jarðar fara í taugarnar á sér. Svo voru Grindvíkingar líka með Ólaf Ólafsson í sínu liði.

Hverjir stóðu upp úr?

Máté Dalmay, þjálfari Hauka, talaði um það fyrir leik að þeir þyrftu að finna leiðir til að hemja téðan Ólaf Ólafsson. Það er óhætt að fullyrða að það hafi ekki gengið eftir, en Ólafur hlóð í þrefalda tvennu í kvöld! 14 stig, 13 fráköst og tíu stoðsendingar.

Damier Pitts stóð einnig fyrir sínu og setti tvo stóra þrista í röð þegar Haukar gerðu sig líklega til að minnka muninn. 21 stig frá honum. 

Hjá Haukum var það Darwin Davis Jr. sem leiddi stigaskorið með 19 og Norbertas Giga kom næstur með 18 og níu fráköst að auki. 

Hvað gekk illa? 

Það verður að minnast aftur á skotnýtinguna hjá Haukum fyrir utan. Ef þeir hefðu sett 2-3 þrista í viðbót við þessa fimm sem fóru ofan í, hefði þessi leikur mögulega þróast allt öðruvísi.

Hvað gerist næst?

Grindvíkingar heimsækja Þór í síðustu umferðinni þann 30. mars, og Haukar taka á móti Blikum kvöldið eftir.

Jóhann Þór: „Mér fannst við varnarlega mjög flottir með okkar mann, Breka, fremstan í flokki“

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók undir þá fullyrðingu blaðamanns að Grindvíkingar hefðu í raun verið skrefinu á undan allan leikinn í kvöld.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.Vísir/Vilhelm

„Algjörlega. Þetta fór aldrei í meira en einhver 10-12 stig, en samt yfir allan leikinn. Bara hrós á mína menn. við höldum þeim í 72 stigum. Auðvitað eru Haukarnir örugglega ósáttir með einhver „play“ hjá sér sóknarlega, henda boltanum útaf og svona, en mér fannst við bara varnarlega mjög flottir með okkar mann, Breka, fremstan í flokki. Hann var sem fyrr geggjaður fyrir okkur varnarlega og búinn að vera það í vetur.“

„Ég er bara, aftur, mjög sáttur með mitt lið. Við getum sagt að það hafi verið vorbragur í stúkunni en kannski ekki inni á vellinum sóknarlega. En heilt yfir flott og tvö góð stig.“

Lykilmenn Grindvíkinga lentu í villuvandræðum í kvöld en Jóhann leysti það vel með því að setja ábyrgð á herðar uppaldra og ungra leikmanna. Það hlýtur að vera ánægjulegt að fá þetta framlag frá heimalningunum þegar á reyndi?

„Bara geggjað sko. Nökkvi og Bragi stóðu sig vel, og auðvitað Breki. Þetta er bara þannig að við erum með þannig lið að við þurfum að rúlla og þetta snýst svolítið um að lifa þessar mínútur af og við gerðum það mjög vel í kvöld.“

Síðasti leikur Grindavíkur er gegn Þórsurum eftir viku. Viðureignir þessara liða hafa oft orðið ansi áhugaverðar. Má ekki reikna með að það verði tekist jafn hart á þar og í kvöld, jafnvel harðar?

„Alveg klárlega. Alltaf gaman að fara í Þorlákshöfn, í hamingjuna. Það er bara næsta verkefni í þessari vegferð okkar. Við njótum í kvöld og reynum að endurheimta eins og við getum og vera klárir eftir viku.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira