Innherji

Fjár­festar auka stöðu­töku sína með krónunni um tugi milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Ágætis stöðugleiki hefur verið á gjaldeyrismarkaði frá áramótum og er gengi krónunnar, eftir að hafa styrkst nokkuð frá lokum janúar, á svipuðum stað í dag og í byrjun ársins.
Ágætis stöðugleiki hefur verið á gjaldeyrismarkaði frá áramótum og er gengi krónunnar, eftir að hafa styrkst nokkuð frá lokum janúar, á svipuðum stað í dag og í byrjun ársins. Getty

Eftir að gengi krónunnar hafði veikst stöðugt á seinni árshelmingi 2022 eru merki um að væntingar fyrirtækja og fjárfesta hafi breyst að nýju sem endurspeglast í aukinni framvirkri gjaldeyrisstöðu viðskiptabankanna með krónunni í byrjun þessa árs. Það kann að hafa átt sinn þátt í því krónan hefur rétt úr kútnum að undanförnu og þá voru gjaldeyriskaup lífeyrissjóða í liðnum mánuði með minnsta móti um langt skeið.

Umfang stöðutöku með krónunni, eða svonefnd gnóttstaða í gegnum framvirka samninga með gjaldeyri, jókst um tæplega 30 milljarða króna í síðastliðnum desember og janúar – úr 147 milljörðum í 174 milljarða – eftir að lækkað skarpt mánuðina þar á undan, að því er fram kemur í nýjum hagtölum sem birtust í Fjármálastöðugleika Seðlabankans í síðustu viku. Mest nam stöðutakan með krónunni tæplega 200 milljarðar í lok ágúst í fyrra eftir að hafa aukist hratt framan af árinu 2022 samhliða væntingum um hækkandi gengi.

Ágætis stöðugleiki hefur verið á gjaldeyrismarkaði frá áramótum og er gengi krónunnar, eftir að hafa styrkst nokkuð frá lokum janúar, á svipuðum stað í dag og í byrjun ársins. Gagnvart evrunni hefur krónan hækkað um tæplega eitt prósent og kostar evran núna um 150 krónur.

Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans er vísað til þess að markaðurinn sé þunnur og væntingar fjárfesta og fyrirtækja geti því breyst skjótt, eins og endurspeglist í aukinni framvirkri gjaldeyrisstöðu bankanna.

„Lækkun kröfu á erlendar skuldabréfaútgáfur viðskiptabankanna á þessu ári virðist einnig hafa róað markaðinn. Að auki hefur meira skilað sér inn af gjaldeyri vegna utanríkisviðskipta, mögulega vegna hækkandi vaxtastigs hér á landi, og eins hafa einstaka fjárfestingarhreyfingar leitt til nokkurs innflæðis,“ segir í ritinu.

Samkvæmt reglum sem Seðlabanki Íslands setti á seinni árshelmingi 2021 þá er öllum frjálst að eiga framvirk viðskipti með krónuna en áður fyrr þurfti að sýna fram á að viðskiptin væru til þess fallin að verja ákveðið gjaldeyrismisvægi, ýmist á efnahagsreikningi eða í greiðsluflæði vegna utanríkisviðskipta.

Þeir sem gera samninga við banka um framvirk viðskipti á gjaldeyri, fjárfestar eða útflutningsfyrirtæki, þurfa jafnan að leggja fram lítið eigið fé sem tryggingu eða sem nemur yfirleitt á bilinu 6 til 8 prósent af fjárhæð samningsins. Skuldsetningin, eða gírunin, að baki slíkum framvirkum samningum með krónuna getur því stundum verið meira en fimmtánföld, þótt algengara er að hún sé eitthvað lægri, að sögn viðmælenda á gjaldeyrismarkaði. 

Sérfræðingar á markaði segja umfang stöðutökunnar með krónunni ekki þurfa að koma á óvart. Gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum fer fjölgandi og útlit er fyrir metár í ferðaþjónustu á þessu ári en í fyrra námu tekjur af erlendum ferðamönnum tæplega 450 milljörðum króna.

Þrátt fyrir það er Seðlabankinn heldur svartsýnn í spám sínum um viðskiptajöfnuð og gerir ráð fyrir að hallinn verði í kringum 3 prósent af landsframleiðslu, sem jafngildir um 120 til 140 milljarða árlegum halla, fram til ársins 2025. Það er umtalsvert meiri viðskiptahalli en var í fyrra, sem var um 1,5 prósent af landsframleiðslu, og eru helstu skýringarnar þar væntingar bankans um versnandi viðskiptakjör vegna lækkandi verðs á sjávarafurðum og áli og að sama skapi hækkandi innflutningsverð.

Í riti Seðlabankans er vakin athygli á því, eins og Innherji hefur áður fjallað um, að einn af þremur viðskiptavökunum á gjaldeyrismarkaði – þeir eru Arion, Landsbankinn og Íslandsbanki – hafi í fyrra „keypt mun meira af erlendum gjaldeyri en hann seldi og fóru kaupin aðallega fram á seinni helmingi ársins.“ Ekki er tilgreint sérstaklega að um sé að ræða Landsbankann en hins vegar bent á að slík þróun sé „alls ekki einsdæmi“ og endurspegli „fyrst og fremst“ aukna eftirspurn viðskiptavina eftir gjaldeyri sem getur verið misjöfn og breytileg eftir tíma.

Einn af þremur viðskiptavökunum keypti mun meira af erlendum gjaldeyri en hann seldi og fóru kaupin aðallega fram á seinni helmingi ársins.

Þannig hafi gjaldeyrisjöfnuður viðskiptabankanna verið í ágætis jafnvægi yfir árið 2022 en hækkaði hvað mest í júní eða samanlagt um tæplega 20 milljarða. Var hann nokkuð stöðugur eftir það, að sögn Seðlabankans.

Margt lagðist á sömu sveif til veikingar krónunnar á seinni árshelmingi í fyrra en gengisvísitalan lækkaði þá um meira en átta prósent. Krafan á erlend markaðsskuldabréf bankanna tók að hækka skarpt á síðustu mánuðum ársins sem jók á óvissu um fjármögnun innlendra aðila, einkum Landsbankans sem átti þá eftir að endurfjármagna stóran gjalddaga í evrum í lok maímánaðar, hvort sem var með útgáfu erlendis eða óbeint með lántöku hjá bönkunum.

Mikill og vaxandi þungi var sömuleiðis í ásókn lífeyrissjóða í eignir í erlendri mynt þegar líða tók á árið 2022 sem endurspeglaðist í því að sjóðirnir keyptu gjaldeyri fyrir nálægt 46 milljarða á tímabilinu frá september til loka desember. Svo umfangsmikil gjaldeyriskaup á jafn skömmum tíma hafa ekki sést frá árinu 2019 en þá – ólíkt stöðunni sem nú er uppi – var mikill afgangur á viðskiptum þjóðarbúsins við útlönd sem gaf sjóðunum færi á að fjárfesta verulega erlendis án þess að hefði teljandi áhrif á gengisstöðugleika.

Sjóðirnir héldu áfram sínu striki í janúar, þegar þeir keyptu gjaldeyri fyrir rúmlega 11 milljarða, en hins vegar dró nokkuð úr kaupunum í liðnum febrúarmánuði þegar þau námu um 4,5 milljörðum króna.

Seðlabankinn vekur athygli á því að ef litið sé á gjaldeyrisviðskipti sjóðanna dag fyrir dag undir lok síðasta árs fóru umfangsmeiri kaup þeirra aðallega fram þá daga sem gengi krónunnar hækkaði, þó svo að gengið hafi ef til vill lækkað í mánuðinum. Lífeyrissjóðirnir virðist því vera sveiflujafnandi á gjaldeyrismarkaði en þó aðallega á aðra hliðina, að því er segir í Fjármálastöðugleika.

Verðlækkanir á erlendum mörkuðum hafa búið til aukið svigrúm fyrir erlenda fjárfestingu lífeyrissjóðanna og gæti það aukist enn frekar verði frumvarp sem felur í sér hækkun hámarks gjaldeyriseigna af heildareignum lífeyrissjóða að lögum. Seðlabankinn segir hins vegar óvíst að hversu miklu leyti lífeyrissjóðirnir myndu nýta sér hið aukna svigrúm.

Fyrirætlanir sjóðanna gera þannig ráð fyrir að þeir muni að óbreyttu auka gjaldeyriseignir sínar fyrir samanlagt vel á þriðja hundrað milljarða króna á árinu 2023, samkvæmt þeim fjárfestingastefnum sem þeir hafa sett sér. Lífeyrissjóðirnir stefna að því að auka hlutfall erlendra eigna sinna um 3,5 prósentustig sem hlutfall af heildareignum á árinu 2023, eins og Innherji hefur áður fjallað um. Á móti munu þeir draga úr vægi ríkisvíxla og skuldabréfa en staða lífeyrissjóðanna innbyrðis er æði misjöfn, sem skekkir slíkan útreikning, auk þess sem verðþróun á erlendum eignamörkuðum og gengi krónunnar hefur sömuleiðis mikil áhrif á hlutfall gjaldeyriseigna sjóðanna hverju sinni.

Seðlabankinn bendir á að lífeyrissjóðirnir hafi selt lítið af gjaldeyri frá því að fyrrgreint frumvarp um heimildir þeirra til fjárfestinga erlendis var lagt fyrst fram á vormánuðum í fyrra. Gjaldeyriskaup lífeyrissjóða í ár muni líklega, að sögn Seðlabankans, líkt og síðustu ár taka mið af gjaldeyrisflæði til og frá landinu.

Lögbundið hámark kveður á um að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna megi ekki vera meiri en sem nemur helmingi af heildareignum þeirra. Samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka þetta hámark í stigvaxandi skrefum upp í 65 prósent frá og með árinu 2024 fram til ársins 2036. Í viðtali við Innherja í lok nóvembermánaðar sagði hins vegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að aukinn viðskiptahalli og versnandi ytri staða þjóðarbúsins þýddi að nú væri ekki rétti tíminn til að ráðast í lagabreytingar í því skyni að auka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í erlendum gjaldmiðlum.


Tengdar fréttir

Hækkandi álag á banka­bréfin „gróf veru­lega“ undan gjald­eyris­markaðinum

Seðlabankastjóri segjast hafa væntingar um að gengi krónunnar hafi náð lágmarki og það muni styrkjast þegar líður á árið. Mikil hækkun vaxtaálags á skuldabréf bankanna í erlendri mynt hafði talsverð neikvæð áhrif á gjaldeyrismarkaðinn á síðustu mánuðum ársins 2022 en nú er útlit fyrir að sú staða sé að breytast til hins betra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×