Skoðun

Franska til fram­tíðar

Rósa Elín Davíðsdóttir skrifar

20. mars er alþjóðlegur dagur franskrar tungu og haldið er upp á daginn um allan heim. Fleiri en 300 milljónir tala frönsku í fimm heimsálfum og franska er það tungumál sem næstflestir læra í skólum í heiminum. Franskir háskólar eru ofarlega á lista yfir bestu háskóla heims og standa sérlega vel í ýmsum greinum, til dæmis stærðfræði, stjórnmálafræði, hagfræði, viðskiptafræði og alþjóðasamskiptum.

Margar alþjóðastofnanir og alþjóðasamtök nota frönsku, oft sem annað opinbert tungumál á eftir ensku, til dæmis UNESCO, Læknar án landamæra, Rauði krossinn. Evrópuráðið og mannréttindadómstóll Evrópu svo fátt eitt sé nefnt.

Við styttingu námstíma til stúdentsprófs árið 2015, úr fjórum árum í þrjú, fækkaði einingum í erlendum tungumálum sem nemendur þurfa að taka til stúdentsprófs. Nýstúdentar búa því yfir talsvert minni færni og kunnáttu í þriðja erlenda tungumálinu (frönsku, spænsku eða þýsku) nú en fyrir styttingu námstímans.

Samhliða þessu hefur þeim framhaldsskólum sem bjóða upp á frönsku sem þriðja tungumál til stúdentsprófs fækkað og er franska nú einungis kennd við 12 framhaldsskóla. Jafnframt virðast nýir framhaldsskólar hafa tekið ákvörðun um að bjóða ekki upp á frönskunám.

Þessi þróun á sér stað á sama tíma og alþjóðavæðing og alþjóðlegt samstarf hefur aukist meira en nokkru sinn fyrr. Ferðaþjónustan hefur vaxið gífurlega og því er þörfin fyrir tungumálakunnáttu meiri en áður. Utanríkisráðuneyti Íslands sem og alþjóðlegar stofnanir á borð við Rauða krossinn á Íslandi hafa bent á að sárlega vanti fólk með frönskukunnáttu til starfa.

Ef fram heldur sem horfir og enn verði dregið úr kennslu á mikilvægum tungumálum svo sem frönsku þá er hætt við að Ísland dragist aftur úr á fjölmörgum sviðum, því aðgangur Íslendinga að viðskiptum, vísindum og menningarverðmætum þrengist jafnt og þétt með minnkandi tungumálakunnáttu.

Það er því von félags frönskukennara að þeir framhaldsskólar sem bjóða upp á frönsku standi vörð um hana og tryggi að í framtíðinni verði áfram boðið upp á öflugt nám í frönsku á Íslandi.

Góð frönskukunnátta eykur samkeppnishæfni unga fólksins okkar á vinnumarkaði, gerir þeim kleift að starfa á alþjóðavettvangi og síðast en ekki síst eykur hún víðsýni og opnar dyr að öðrum menningarheimum – ekki bara Frakklandi heldur frönskumælandi löndum um allan heim.

Fyrir hönd félags frönskukennara á Íslandi,

Rósa Elín Davíðsdóttir,

aðjunkt í frönsku við Háskóla Íslands og ritstjóri Lexíu, íslensk-franskrar veforðabókar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×