Viðskipti innlent

Sól­rún og Hildur ráðnar til Terra um­hverfis­þjónustu

Atli Ísleifsson skrifar
Sólrún Hjaltested og Hildur Emilsdóttir.
Sólrún Hjaltested og Hildur Emilsdóttir. Aðsend

Sólrún Hjaltested hefur verið ráðin mannauðsstjóri Terra umhverfisþjónustu og Hildur Emilsdóttir sem verkefnastjóri stefnumótunar og umbóta félagsins.

Í tilkynningu frá Terra segir að báðar hafi þegar hafið störf og séu í teymi sjálfbærrar menningar og stjórnarhátta sem sé stoðsvið hjá Terra umhverfisþjónustu auk þess að sinna dótturfélögum þess.

„Sólrún Hjaltested mun sem mannauðsstjóri leiða þróun í mannauðsmálum félagsins og kemur inn með fjölbreytta og mikla reynslu í mannauðsmálum bæði hjá einkafyrirtækjum og hjá hinu opinbera. Sólrún kemur til Terra umhverfisþjónustu frá Bestseller en þar starfaði hún sem mannauðsstjóri síðastliðin fimm ár. Þar áður var Sólrún hjá Vodafone en hún starfaði þar sem fræðslustjóri einnig í um fimm ár. Frá árinu 2004 til 2011 starfaði hún hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness um málefni fatlaðra (SMFR), ýmist sem ráðgjafi í fræðslu- og gæðamálum, sviðsstjóri fræðslu- og þróunarsviðs eða sviðsstjóri starfsmannasviðs. Sólrún er með BA próf í sálfræði og MS próf í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Hildur Emilsdóttir mun sem verkefnastjóri stefnumótunar og umbóta leiða nýja stefnu félagsins og umbótarverkefni ásamt því að móta nýjar áherslur í lausna- og árangursmiðaðri menningu hjá félaginu. Hildur kemur frá Advania þar sem hún starfaði sem verkefnastjóri í innleiðingu fjárhagskerfa. Þar á undan var hún í níu ár hjá Coca-Cola Europacific partners (áður Vífilfell) þar sem hún starfaði sem sérfræðingur á vörustjórnunarsviði og verkefnastýrði m.a. vörunýjungum áfengra og óáfengra drykkja. Hildur er viðskiptafræðingur með markaðsáherslur frá Háskólanum á Bifröst og lauk á síðastliðnu vori meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×